Fara í efni
Skipulagsmál

Verksmiðjusvæðið verði „miðsvæði“

Hugmynd að uppbyggingu að Gleráreyrum. Til hægri er verslunarmiðstöðin Glerártorg. Húsin tvö sem eru næst á myndinni myndu koma þar sem verslun Slippfélagsins og hjólbarðaverkstæði og þvottastöð Hölds eru nú.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur auglýst til kynningar  tillögu á vinnslustigi að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar og deildiskipulagi vegna áforma um byggingu fjölbýlishúsa að Gleráreyrum 2-10. 

Breytingin á aðalskipulaginu tekur til endurskilgreiningar reita við Gleráreyrar þar sem reitir sem nefndir eru VÞ6 og ÍB4 í skipulaginu, að þeir verði sameinaðir og breytt í miðsvæði (M3), með heimildum fyrir 100-150 íbúðir á svæðinu ásamt verslun og þjónustu. Í lýsingu með tillögu að breytingu á aðalskipulagi segir meðal annars að til að auka möguleika á fjölbreyttri uppbyggingu svæðisins sé gert ráð fyrir að reiturinn allur þróist yfir í miðsvæði og verði útfærsla þess nánar skilgreind í deiliskipulagi. 

  • Miðsvæði í skipulagi er skilgreint svo í skipulagsreglugerð: „Svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“

Ákvæði fyrir miðbæ og miðsvæði eru í greinargerð gildandi aðalskipulags fyrir Akureyri þar sem segir að þar sem aðstæður leyfa megi gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. 


Skýringarmynd með skipulaginu sem sýnir staðsetningu væntanlegra fjölbýlishúsa ásamt afstöðu þeirra við verslunarmiðstöðina Glerártorg.

Með breytingu á deiliskipulagi samkvæmt auglýstri tillögu verður heimilt að byggja íbúðir, í bland við þjónustu- og verslunarrými á fyrstu tveimur hæðum húsanna á lóðum 2-10. Breytingin heimilar að íbúðabyggingar stækki til norðurs ásamt því að bæta við lóð syðst á skilgreindu svæði fyrir Gleráreyrar 10. Leyfileg hámarkshæð bygginganna verður frá 24 upp í 30 metra þar sem efsta hæðin skal vera inndregin um að minnsta kosti 1,3 metra. Gert er ráð fyrir 100-120 íbúðum á svæðinu. 

Akureyri.net hefur áður sagt frá þessum áformum frá því þau komu fyrst fram og sýnt skýringarmyndir ásamt hugmyndum að útliti.

Stór hluti þess svæðis sem um ræðir er nú þegar skilgreindur sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi, en meginhluti þess svæðis sem breyting á aðalskipulaginu nær til er skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. 

Skipulagstillögur kynntar á opnu húsi 5. september

Þess má geta að fimmtudaginn 5. september mun þessi skipulagstillaga, ásamt tillögu um breytingar á skipulagi á svæði Nausta III, liggja frammi til kynningar í Ráðhúsi Akureyrar kl. 15-18. Akureyrarbær hvetur íbúa og hagsmunaaðila til að mæta, kynna sér tillögurnar og fá nánari upplýsingar frá starfsfólki þjónustu- og skipulagssviðs um efni þeirra. Þá er einnig hægt að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum á staðnum, að því er fram kemur í frétt á Akureyri.is