Fara í efni
Skipulagsmál

Töluverð landfylling og bryggjan endurbyggð

Torfunefsbryggja verður stækkuð og mun ná 16 til 20 metrum lengra út á Pollinn en nú. Fyllt hefur verið upp í svæðið milli bryggjunnar og Glerárgötu síðan myndin var tekin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stefnt er að því að endurbyggja Torfunefsbryggju, í miðbæ Akureyrar, á næstu misserum. Nýtt þil verður rekið niður um 16-20 metrum utar en gamla þilið.

Bryggjan er ónýt og löngu orðið tímabært að endurnýja hana, að sögn Péturs Ólafssonar, hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands, og með fjölgun skemmtiferðaskipa síðustu misseri og aukinni hafnsækinni ferðaþjónustu í kjölfarið sé orðið brýnt að skapa betri aðstæður.

Kórónuveirufaraldurinn hefur að vísu tafið fyrir en nú er ákveðið að farið verði í verkið. „Við erum að reyna að skapa land á besta stað í bænum, til þess að gera miðbæjarsvæðið enn meira aðlaðandi en það er,“ segir Pétur Ólafsson við Akureyri.net. „Ég tel þessa lausn þá lang bestu fyrir alla; ég held að svæðið geti orðið mjög fallegt, það tengist miðbænum og Hofi og gæti orðið vinsæll staður fyrir ferðamenn og Akureyringa. Það er þekkt að alls staðar sogast ferðamenn niður að höfn,“ segir Pétur.

Í fyrrasumar var hafist handa við að styrkja botninn framan við bryggjuna þegar dýpkunarskip var þar um tíma. Hönnun stendur yfir og Pétur segir að gangi allt að óskum, hefjist framkvæmdir fyrir alvöru á næsta ári.

Hafnarsamlag Norðurlands mun eignast það land sem til verður við breytingarnar. Pétur segir breytingarnar ekki verða til þess að stærri skip leggist að Torfunefsbryggju en hingað til „en þetta gæti opnað möguleika á einhvers konar uppbyggingu í hjarta bæjarins, þjónustuhús eða hvað sem er fyrir hafnsækna ferðaþjónustu. Mikil þörf er á góðri aðstöðu bæði fyrir hvalabátana og farþega.“

Torfunefsbryggjan gæti orðið um það bil svona eftir breytingarnar. Guli flöturinn er núverarandi bryggja en brúni flöturinn bætist væntanlega við.