Fara í efni
Skipulagsmál

Tengir glerbygging Hafnarstræti 80 og 82?

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki breytingu á deiliskipulagi vegna hótelbygginga að Hafnarstræti 80 og 82 samkvæmt tillögu THG arkitekta og að hún verði auglýst samkvæmt skipulagslögum.

Tillagan var kynnt í desember og í viðbrögðum við henni setur Minjastofnun sig upp á móti því að tengja saman nýbyggingu að Hafnarstræti 80 og núverandi hús að Hafnarstræti 82 þar sem það hús „var byggt sem stakt pakkhús og sú staða þess þarf að vera sýnileg við útfærslu skipulagsins,“ eins og segir í tölvupósti stofnunarinnar. Þar er tekið fram að Minjastofnun muni senda formlega umsögn þegar skipulagið verður auglýst og óskað umsagnar stofnunarinnar. Fram kemur í afgreiðslu skipulagsráðs að gerð hafi verið tillaga að breytingu til að koma til móts við athugasemdir Minjastofnunar og hefur sú breyting verið kynnt stofnuninni.

Í umsókninni kemur fram að eigandi og framkvæmdaaðili að Hafnarstræti 80 og 82 hafi metnað til að sæta færis og ná fyrsta alþjóðlega hótelvörumerki utan höfuðborgarsvæðisins til Akureyrar. „Til þess að svo megi verða þarf að ná fram rekstrarhæfri einingu með lágmarksherbergjafjölda, sem stendur undir byggingaframkvæmd og byggingarnar þurfa að vera tengdar saman upp á hagkvæmni og öryggissjónarmið fyrir starfsfólk, gesti, þjónustu og rekstur hótelsins,“ eins og segir í umsókninni. 


Yfirlitsmynd af umræddu svæði og nágrenni þess. Skjáskot úr tillögu THG arkitekta. 

Fram kemur að í deiliskipulagi sé heimilt að stækka Hafnarstræti 82 til suðurs og þá í sama útliti og er á núverandi húsi. Hugmyndin og umsóknin núna gengur hins vegar út á að í stað þess að stækka Hafnarstræti 82 til suðurs er núna óskað eftir að láta núverandi hús halda sér eins og það er og tengja það við Hafnarstræti 80. „Hluti nýbyggingar, sem er næst núverandi húsi yrði alfarið úr gleri, bæði veggir og þak, og veggirnir ganga inn frá útveggjum, sem slítur þannig upp ásýndina á milli húsanna í götumyndinni. Í glerbyggingunni verður brú og opið á milli hæða sitt hvoru megin við brúna, þannig verður tengingin að núverandi húsi sem allra léttust. Með þessu er verið að tryggja að Hafnarstræti 82 fái þá athygli og viðhald sem það á skilið til framtíðar,“ segir enn fremur í umsókninni. Þar er einnig vísað í svipaðar framkvæmdir á nokkrum stöðum í Reykjavík og bent á að þær framkvæmdir beri þess merki að metnaður hafi verið lagður í uppbyggingu, sögulegum heimildum og húsakynnum sé þar gert hátt undir höfði.