Fara í efni
Skipulagsmál

Telja áhrif jákvæð af gjaldskrárbreytingum

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Meirihluti bæjarráðs fagnar útkomu rannsóknar á viðhorfi starfsfólks og stjórnenda á leikskólum bæjarins til breytinga á starfsumhverfi í kjölfar gjaldskrárbreytinga sem gerðar voru 1. janúar 2024. Fulltrúar S- og V-lista lýsa áhyggjum yfir því að enn sem komið er hafi áhrif breytinganna á foreldra ekki verið rannsökuð.

Rannsakað á Akureyri og í Kópavogi

Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA, og Svava Björg Mörk, lektor við HÍ, gerðu rannsókn á starfsumhverfi í leikskólum á Akureyri og í Kópavogi í kjölfar gjaldskrárbreytinga sem urðu hjá Akureyrarbæ 1. janúar 2024. Anna Elísa mætti á fund bæjarráðs nýlega og kynnti niðurstöður könnunarinnar.

Í kynningunni kom meðal annars fram að niðurstöður hafi verið nokkuð skýrar, fólk upplifi jákvæðar breytingar og það sé sérstaklega merkilegt með það í huga hve stutt var liðið frá því að breytingin var gerð á Akureyri þar til gögnum var safnað. 

Meðal þess sem rannsakendur drógu fram var að fólk væri jákvætt gagnvart breytingunum, ánægt með að tíminn væri festur milli kl. 8 og 14, fólk telji starfsaðstæður betri og margt auðveldara í skipulagi og að börnin hafi hagnast af breytingunum. Þá kemur einnig fram að svarendur óttist að ytri ramminn verði færður til þannig að gagnsemi breytinganna hverfi, að breytingarnar verði dregnar til baka eða þeim breytt á þann hátt að róðurinn þyngist aftur í starfinu. 

Höldum áfram að þróa gjaldskrárbreytingar

Í bókun meirihluta bæjarráðs segir meðal annars: „Við munum halda áfram að þróa gjaldskrárbreytingar í leikskólum en teljum þetta hafa verið afar góða breytingu og jákvæða þróun í starfsumhverfi í leikskólum á Akureyri bæði fyrir starfsfólk og börn.“

Hilda Jana Gísladóttir (S) og Ásrún Ýr Gestsdóttir (V) nefna í sinni bókun mikilvægi rannsókna og segja niðurstöðurnar í samræmi við það sem lagt var upp með, starfsfólk leikskóla sé almennt jákvætt til breytinganna, en lýsa áhyggjum yfir því að ekki hafi einnig verið rannsökuð áhrif breytinganna á foreldra enda sé erfitt að aðskilja velferð barna og fjölskyldna þeirra. Þær benda einnig á að Jafnréttisstofa hafi lagt áherslu á að meta þurfi áhrifin á ólíka hópa foreldra og segja: „Til þess að tryggja jákvæða heildarniðurstöðu til framtíðar, sátt og stöðugleika, er mikilvægt að horfa einnig til þess að meta hvort og þá hvernig hægt sé að koma til móts við ólíka hópa.“

Helstu niðurstöður

Rannsóknin var gerð í 17 skólum, átta á Akureyri og níu í Kópavogi. Svipaðar breytingar voru gerðar í báðum bæjarfélögunum. Tekin voru rýniviðtöl við skólastjórnendur í febrúar, tvö viðtöl í hvoru sveitarfélagi. Sendur var spurningalisti til deildarstjóra í mars, til annars starfsfólks sem vinnur með börnum í maí og til skólastjórnenda í júní. Í Akureyrarhluta komu svör frá 41 deildarstjóra og 187 starfsmönnum sem vinna með börnum. 

Spurt var um reynslu af breytingunum, áhrif þeirra á skólastarfið, skipulag, starfsaðstæður barna og fullorðinna, áhrif á starf þess sem svarar, svigrúm til að sinna starfinu, halda áætlunum, eiga samskipti við foreldra og sinna börnunum, áhrif á undirbúningstíma og vinnutímastyttingu, samskipti, áhrif á börnin að mati svarenda, líðan þeirra, leik og viðfangsefni.

  • Nær 82% skólastjórnenda telja reynsluna af breytingunum frekar eða mjög jákvæða og nær 75% starfsfólks. Töflurnar í greininni eru skjáskot úr kynningu á niðurstöðum könnunarinnar.

  • Meirihluti skólastjóra, deildarstjóra og starfsfólks telur áhrifin á skólastarfið vera frekar eða mjög mikil. Ríflega 76% skólastjóra segja áhrifin frekar eða mjög mikil, tæplega 73% deildarstjóra, en aðeins tæp 59% starfsfólks sem vinnur með börnum.

  • Breytingarnar virðast ekki hafa eins mikil áhrif á skipulagið í skólunum að mati þeirra sem þar starfa, nema hjá skólastjórnendum. Um 81% skólastjórnenda segja áhrifin frekar eða mjög mikil, rúmlega 65% deildarstjóra og rúmlega 58% starfsfólks sem vinnur með börnum.

  • Yfir 90% skólastjóra segja áhrifin af breytingunum á starfsfólk frekar eða mjög mikil og vel yfir 80% bæði deildarstjóra og annars starfsfólks sömuleiðis.

  • Í könnuninni voru skólastjórar, deildarstjórar og starfmenn einnig spurðir um mat þeirra á áhrifum breytinganna á börnin. Af skólastjórum segja tæp 91% áhrifin á börnin vera frekar eða mjög mikil, ríflega 83% deildarstjóra sömuleiðis og rúmlega 73% þess starfsfólks sem vinnur með börnunum.

  • Tæp 91% skólastjóra telja áhrif af gjaldskrárbreytingunni á vinnufrið barna vera frekar eða mjög mikil, en þó aðeins rúm 9% að þau séu mjög mikil. Tæp 62% deildarstjóra og rúm 59% starfsfólks telja áhrifn frekar eða mjög mikil á vinnufrið barna.

  • Áhrif gjaldskrárbreytinganna á leik barna eru þó heldur minni að mati svarenda. Tæp 64% skólastjóra telja þau frekar eða mjög mikil, fæstir þó mjög mikil. Tæð 49% deildarstjóra og rúm 45% starfsfólks segja áhrifin frekar eða mjög mikil.

  • Mikill meirihluti telur að breytingarnar hafi haft frekar eða mjög mikil áhrif á líðan barna. Ríflega 86% skólastjóra, tæplega 75% deildarstjóra og ríflega 66% starfsfólks telja áhrifin frekar eða mjög mikil.

Meirihluti bæjarráðs bókaði

Meirihluti bæjarráðs fagnar útkomu rannsóknar Önnu Elísu Hreiðarsdóttir lektors við HA og Svövu Bjargar Mörk lektors við HÍ sem þær gerðu á starfsumhverfi í leikskólum í kjölfar gjaldskrárbreytinga sem varð 1. janúar 2024 hjá Akureyrarbæ, sem fól í sér sex gjaldfrjálsa tíma. Við munum halda áfram að þróa gjaldskrárbreytingar í leikskólum en teljum þetta hafi verið afar góða breytingu og jákvæða þróun í starfsumhverfi í leikskólum á Akureyri bæði fyrir starfsfólk og börn.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista bókuðu:

Mikilvægi rannsókna eru ótvíræð og ánægjulegt að fá kynningu á niðurstöðum á viðhorfum starfsfólks leikskóla til kerfisbreytinga á leikskólakerfinu á Akureyri. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem lagt var upp með. Starfsfólk leikskóla er almennt jákvætt til breytinganna, meta m.a. að áhrifin fyrir börn séu jákvæð og að starfsaðstæður þeirra séu betri og að þeim líði betur.
Það er hins vegar áhyggjuefni að enn sem komið er séu ekki líka rannsökuð áhrif breytinganna á foreldra, enda erfitt að aðskilja velferð barna og fjölskyldna þeirra. Jafnréttisstofa hefur lagt áherslu á að meta þurfi áhrifin á ólíka hópa foreldra t.d. út frá kynjasjónarmiði, þjóðerni, hvort að um sé að ræða einstæða foreldra eða foreldra í sambúð. Til þess að tryggja jákvæða heildarniðurstöðu til framtíðar, sátt og stöðugleika, er mikilvægt að horfa einnig til þess og meta hvort og þá hvernig hægt sé að koma til móts við ólíka hópa.