Fara í efni
Skipulagsmál

Stjórn Norðurorku segir þörf á hækkunum

Stjórn Norðurorku hefur samþykkt hækkun á gjaldskrám veitna frá og með áramótum. Hækkunin er mismikil eftir veitum, mest í fráveitu sem hefur komið neikvætt út úr virðisprófunum fyrirtækisins. Hækkanir á gjaldskrám eru frá 5,2% upp í 11,2%. Endanleg ákvörðun um gjaldskrárbreytingar þarfnast hins vegar staðfestingar, annars vegar bæjarstjórnar fyrir vatns- og fráveitur og hins vegar Orkustofnunar og ráðuneytis um raf- og hitaveitu.

Ákvörðun um hækkanir á gjaldskrám var tekin á fundi stjórnar Norðurorku í október. Gangi þessi ákvörðun eftir verða hækkanir á gjaldskrám einstakra veitna sem hér segir:

  • Fráveita um 11,2%
  • Vatnsveita um 5,2%
  • Rafveita um 9,2%
  • Hitaveita um 7,5%

Vísitala, verðbólguspá og áhrif stórra verkefna

Fram kemur í rökstuðningi stjórnarinnar að grunnur til útreikninga á breytingu á verðskrám sé reiknaður þannig að annars vegar sé ársreikningur liðins árs brotinn niður og vægi rekstrarkostnaðar tengdur vísitölum. Þannig sjáist áhrif vísitölubreytinga á rekstrarkostnað Norðurorku. Hins vegar er horft til verðbólguspár Seðlabanka Íslands. Vísitala Norðurorku liðna 12 mánuði er nú reiknuð 6,1% og verðbólguspá Seðlabankans 4,2%. Þessar vísitölur vegnar saman til helminga eru 5,2% og mynda grunn fjárhagsáætlunar fyrirtækisins fyrir árið 2025. Einnig er eins og ávallt horft á áhrif stórra verkefna sem Norðurorka vinnur að. 

Um hækkanir á gjaldskrá hverrar veitu fyrir sig segir í fundargerð Norðurorku frá 22. október:

  • Fráveita
    Í nokkur ár hefur Norðurorka framkvæmt virðispróf á veitum fyrirtækisins. Fráveitan hefur komið neikvætt út, þ.e. að tekjur standa ekki undir eignum veitunnar. Brýnt er að gera ráðstafanir til að snúa því við. Eins og staðan er í dag þyrfti gjaldskrá fráveitunnar að hækka um 20% til að ná því marki að standast virðispróf. Stjórn telur rétt að taka það í hæfilegum skrefum og fara ekki alla leið nú. En það liggur fyrir, miðað við ofangreint, að verðskrá fráveitunnar mun einnig þurfa að hækka umfram verðlag á árinu 2026 til að veitan standi undir sér.
    Samþykkt að hækka verðskrá fráveitu um 11,2%.
  • Vatnsveita
    Rekstur vatnsveitu er í jafnvægi, tekjur standa undir rekstri og veitan stenst virðispróf. Þrátt fyrir áætlaðar umtalsverðar framkvæmdir á næsta ári er gert ráð fyrir að nýjar tekjur muni duga til að mæta þeim kostnaði til lengri tíma.
    Samþykkt að hækka verðskrá vatnsveitu um 5,2%.
  • Rafveita
    Magn dreifðrar orku í rafveitunni hefur lítið breyst í mörg ár þrátt fyrir fjölgun íbúða og af þeim sökum hafa tekjur ekki vaxið í samræmi við aukið umfang veitukerfisins. Tekjur í rafveitu hafa í nokkur ár verið vanteknar, þ.e. talsvert hefur vantað upp á það að tekjumörk séu nýtt til fulls og mikilvægt er að nálgast þau tekjumörk sem rafveitu eru sett. Rafveita er önnur tveggja veitna Norðurorku sem ekki stenst virðispróf. Það, ásamt því að enn vantar talsvert upp á það að tekjumörk séu nýtt, veldur því að hækka þarf rafveitu umfram verðlagsþróun. Samþykkt að hækka verðskrá rafveitu um 9,2%.
  • Hitaveita
    Fyrir liggur að óhjákvæmilegt er að ráðast í mjög kostnaðarsamar fjárfestingar og framkvæmdir á næstu árum til að svara hratt vaxandi þörf fyrir heitt vatn. Einnig standa yfir umfangsmiklar rannsóknir á starfssvæðinu sem munu halda áfram næstu ár. Framkvæmdaáætlun hitaveitu gerir ráð fyrir 1.088 milljónum króna í fjárfestingar 2025, samtals ríflega 3,6 milljarðar í fjárfestingum næstu fjögur ár. Fjárfestingar í hitaveitu eru u.þ.b. 60% af fjárfestingum næsta árs. Nauðsynlegt er að hækka hitaveituna umfram verðlagsþróun til þess að mæta þessum miklu framkvæmdum og fjárfestingum.
    Samþykkt að hækka verðskrá hitaveitu um 7,5%.