Fara í efni
Skipulagsmál

Skipulagsbreyting vegna Glerárgötu 7 kærð

Rauða húsið til hægri á myndinni er Glerárgata 1, en þar á bakvið er Strandgata 13a þar sem Jón Oddgeir Guðmundsson hefur um árabil rekið verslun með kristilegan varning, Litla húsið. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Jón Oddgeir Guðmundsson, eigandi Glerárgötu 1 og Strandgötu 13a þar sem verslunin Litla húsið er staðsett, hefur kært ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. júní í sumar um breytingar á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Glerárgötu 7 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Fram kemur í rökstuðningi með kærunni að hann telji að umrædd deiliskipulagsbreyting raski verulega grenndarhagsmunum hans og að réttur hans sé fyrir borð borinn. Því beri að fella úr gildi ákvörðun Akureyrarbæjar um breytt skipulag.

Jón Oddgeir er eigandi húseignarinnar að Glerárgötu 1, 199 fermetra timburhúss sem byggt var árið 1900, ásamt eignarlóð sem er 421,8 fermetrar að flatarmáli. Lóðamörk Glerárgötu 1 eru sameiginleg með lóðinni að Glerárgötu 7. Þá er hann einnig eigandi húseignar og 63ja fermetra lóðar að Strandgötu 13a þar sem hann hefur um árabil rekið verslun með kristilegan varning.

Ekki fallist á athugasemdir Jóns Oddgeirs

Jón Oddgeir gerði athugasemdir í nokkrum liðum við meðferð skipulagstillögunnar, en var með bréfi skipulagsfulltrúa þann 12. júlí tilkynnt um afgreiðslu málsins og að ekki væri fallist á athugasemdir hans. Hann telur aftur á móti að athugasemdir hans hafi verið málefnalegar og varði bæði hann og aðra íbúa Akureyrarbæjar miklu. Með deiliskipulagsbreytingunni sé vegið mjög að eignarrétti hans og grenndarhagsmunum.


Skýringasnið af fyrirhugaðri hótelbyggingu. Til vinstri er séð úr Glerárgötu, en til hægri er séð úr Gránufélagsgötu. Skjáskot úr vinnslutillögu vegna umsóknar um breytingu á deiliskipulagi.

Helstu athugasemdir og rök Jóns Oddgeirs í kærunni eru eftirfarandi

  • Hæð fyrirhugaðrar hótelbyggingar. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er gert ráð fyrir að hámarkshæð byggingarinnar sé 21,2 metrar og það segir hann umtalsvert hærra en gert er ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. Fyrirhuguð bygging sé mun hærri en nærliggjandi byggingar og í hróplegu ósamræmi við þær byggingar sem standa sunnan við fyrirhugaða byggingu á lóðinni Glerárgötu 7. Í því sambandi bendir hann á að í aðalskipulagi sé kveðið á um að halda skuli yfirbragði miðbæjarsvæðis og nýbyggingar og breytingar einstakra húsa skuli verað í samræmi við aðliggjandi húsaraðir. Þá telur hann veigalitlar þær röksemdir skipulagsfulltrúa sem bendir á að norðan Glerárgötu 7 standi Ráðhús Akureyrarbæjar sem sé fjórar hæðir enda standi það hús norðan Gránufélagsgötu í nokkurri fjarlægð frá umræddum lóðum, á stórri lóð og í mikilli fjarlægð frá öðrum byggingum.
  • Verulega breytt ásýnd miðbæjar. Með fyrirhuguðum byggingum á lóðunum að Gránufélagsgötu 4 og Glerárgötu 7 telur Jón Oddgeir að verði veruleg breyting á ásýnd miðbæjarins þegar byggð eru háhýsi sem séu að miklu leyti í ósamræmi við þær byggingar, gamlar og nýjar, sem fyrir eru. Hann bendir jafnramt á að nýlega hafi Akureyrarbær keypt lóðina Gránufélagsgötu 10, handan Glerárgötunnar, og telur í þessu samhengi eðlilegt að sveitarfélagið upplýsi um frekari áform sín á þeirri lóð.
  • Grenndaráhrif og skuggavarp. Þá telur hann að fyrirhuguð hótelbygging muni gnæfa yfir nærliggjandi hús með tilheyrandi grenndaráhrifum og skuggavarpi. Það sé sérstaklega sláandi í hans tilviki því fyrirhuguð hótelbygging muni standa nánast á sameiginlegum lóðarmörkum. Þetta sé veruleg breyting frá fyrra deiliskipulagi. Þá telur hann að framlögð gögn um skuggavarp séu ófullnægjandi, meðal annars þar sem ekki sé tekið tillit til þess að í greinargerð deiliskipulags segi nú að skyggni, svalir og flóttastigar megi ná út fyrir byggingarreit. Það sé breyting frá fyrra deiliskipulagi og um þetta sé ósamræmi innan greinargerðarinnar.
  • Neikvæð áhrif á verð fasteigna. Jón Oddgeir gerði í skipulagsferlinu athugasemd sem laut að því að fasteign hans myndi falla verulega í verði yrði af fyrirhugaðri hótelbyggingu. Byggingafulltrúi segir aftur á móti líklegt að með nýju deiliskipulagi muni svæðið í heild verða verðmætara, en Jón Oddgeir hafnar þeirri röksemd þar sem hann telur ljóst af skipulagsáætlunum Akureyrarbæjar á undanförnum árum að áform sveitarfélagsins séu um þéttingu byggðar og aukið byggingamagn. Slíkar aðstæður hafi neikvæð áhrif á áhuga mögulegra kaupenda að fasteignum hans enda megi búast við að þær þurfi að víkja við áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.
  • Röng samlagning lóðastærða og rangar forsendur nýtingarhlutfalls. Þá bendir Jón Oddgeir á að í skipulagstillögunni segi að lóðirnar Glerárgata 3, 5 og 7 hafi verið sameinaðar og heiti nú Glerárgata 7. Slík sameining hafi ekki átt sér stað samkvæmt fasteignaskrá. Enn fremur komi upplýsingar um lóðarstærð sameinaðrar lóðar ekki heim og saman við samanlagðar stærðir lóðanna þriggja. Í tillögunni sé hin sameinaða lóð skráð 2.409,9 fermetrar, en eftir því sem hann komist næst sé samanlögð stærð lóðanna þriggja 2.388,7 fermetrar. Hann telur því að forsendur sem gefnar eru um stærð lóðar í skipulagstillögunni séu rangar og þar af leiðandi sé reiknað nýtingarhlutfall rangt.