Fara í efni
Skipulagsmál

Tillaga um uppbyggingu - MYNDBAND

Tillögur að uppbyggingu á lóðum við Austurbrú og Hafnarstræti í miðbæ Akureyrar liggja fyrir. Þær voru til umfjöllunar í skipulagsráði bæjarins í gær og þar var samþykkt að heimila forsvarsmönnum fjárfestingafélagsins Luxor ehf. að hefja vinnu við breytingar á deiliskipulagi í samráði við Akureyrarbæ.

Um er að ræða lóðina Hafnarstræti 80 þar sem KEA fjárfestingafélag hugðist reisa hótel fyrir nokkrum árum en hætti við, og næstu lóð þar fyrir norðan – Austurbrú 12-14.

Smelltu HÉR til að skoða myndband af fyrirhugaðri uppbyggingu. Hér fyrir neðan eru ljósmyndir og teikningar af svæðinu.

Húsin verða tvær til fjórar og hálf hæð, ofan á hálfniðurgröfnum bílageymslum, en einni hæð hærri á litlum hluta. Íbúðir verða mismunandi að stærð en flestar á bilinu 50 til 100 fermetrar. „Til að njóta umhverfisins og auka gæði íbúðanna er lögð áhersla á að sem flestar íbúðir hafi góðar svalir og ekki síður stóra glugga til að njóta útsýnis og sólar, þegar tækifæri gefst,“ segir í tillögum Luxor. Þar er nefnt að form húsanna taki tillit til gömlu byggðarinnar.

„Byggingarnar mynda tvo kjarna sem að hringa sig í kringum opin sameiginleg garðsvæði. Garðsvæðið verður innréttað með gönguleiðum, torgum, leiksvæði barna og rík áhersla verður lögð á umhverfisvænar og hugmyndaríkar áherslur svo að íbúar, gestir og nágrannar nýti það vel á góðum dögum,“ segir í tillögunum.

„Tillagan gerir einnig ráð fyrir tveimur nýjum torgum sem munu opnast inn í glæsileg garðrými nýbygginganna og þriðja torgið yrði svo fyrir framan kaffihúsið, með útsýni yfir flötina til Samkomuhússins og Pollsins. Frábær áningarstaður fyrir gangandi og akandi vegfarendur.“

Gert hefur verið ráð fyrir byggingu norðan við gömlu umferðarmiðstöðina, Hafnarstræti 82. Fallið verður frá því en þess í stað byggt við suðurenda hússins, þar sem gert er ráð fyrir hótelíbúðum, þjónustustarfsemi og veitingastað eða kaffihúsi. Norðan við Hafnarstræti 82 verður hins vegar til torg sem tengir götuna við nýju byggðina.

Reiknað er með að bílastæði íbúða verði í kjallara húsanna. Þó er ekki gert ráð fyrir að bílastæði fylgi minnstu íbúðum, þjónustu- og veitingaaðstöðu eða íbúðahótelinu.

Eigandi Luxor er Jens Sandholt. Það eru THG Arkitektar ehf sem hannar húsin og J.E. Skanni byggingaverktakar ehf munu sjá um verkefnastjórnina.