Fara í efni
Skipulagsmál

Sækja um hækkun úr 3,5 í fimm hæðir

Skjáskot úr fylgiskjali með umsókninni. Fjærst á myndinni má sjá hvernig byggingar að Hafnarstræti 73 og 75 litu út sem fimm hæða hús. Inni í fréttinni er mynd úr fyrri umsókn þar sem húsin eru 3,5 hæðir.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur heimilað Haraldi Sigmari Árnasyni, fyrir hönd Hótel Akureyri ehf., að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits þannig að fyrirhugaðar byggingar undir hótelstarfsemi á lóðum 73 og 75 við Hafnarstræti verði fimm hæðir í stað 3,5 hæða.

Fyrri hugmyndir komu fram í umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar þar sem fyrirhugað var að reisa hótelbyggingu á lóð nr. 75 og tengja hana við núverandi hús á lóð nr. 73 með tengibyggingu. Skipulagsráð tók jákvætt í það erindi á fundi 10. maí og heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi reitsins, jafnframt því að skipulagsfulltrúa var falið að leita umsagnar Minjastofnunar um tillöguna.

Hér er um sögufræg hús að ræða. Byggingin í Hafnarstræti 67, sem hýsir Hótel Akureyri, er einnig þekkt undir heitinu Skjaldborgarhúsið. Húsið Hafnarstræti 73 þekkja lesendur líklega flestir í tengslum við nafnið Dynheima.