Fara í efni
Skipulagsmál

„Óskiljanlegur þvergirðingsháttur“

„Nei, sæll Skapti minn, gaman að heyra í þér, gamla blaðburðarstráknum mínum og íþróttafréttaritara Íslendings. Þú fórst réttu leiðina, því það er mikilvægt fyrir verðandi blaðamenn að kynnast þeim sem lesa blöðin og fá þannig nasasjón af því hvað það er sem lesandinn hefur mestan áhuga fyrir. En hvað segir þú annars gæskur, ég sá að þú varst að tvístíga hérna í kring um húsið mitt um daginn. Ég ætlaði að ná í þig og bjóða þér inn og upp á kaffi og jafnvel koníak, þar sem þú áttir stórafmæli; búinn að fylla sjötta tuginn í aldri. En þá kom í ljós að koníakið var uppurið, það stendur sjaldan lengi við á þessu heimili; kettinum þykir það svo gott. En hvað liggur þér annars á hjarta, Skapti minn?“

Þetta voru upphafsorð Gísla Sigurgeirssonar, fyrrum ritstjóra, blaðamanns og fréttamanns, þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hans á dögunum. Gísli og eiginkona hans eiga eitt umtalaðasta hús á Akureyri og þótt víðar væri leitað, Tónatröð 8, sem kallað er „Sóttvörn“. Gísli er kumpánlegur og samtal okkar fær því að standa óbreytt, þótt sá sem þetta skrifar sé óþarflega áberandi. Gamli ritstjórinn leiddi samtalið inn á þá braut ...

Húsið er bara peð í tafli Minjastofnunar

Gísli hefur búið undanfarin 30 ár í Tónatröð 8, ásamt eiginkonu sinni, Guðlaugu Ringsted. Skipulagsdeild Akureyrarbæjar hefur farið þess á leit Við Minjastofnun í samráði við húseigendur, að fá heimild til að flytja hús þeirra hjóna á aðra lóð. Því hafnaði Minjastofnun eindregið, eins og sagt hefur verið frá hér á Akureyri.net. En kom það Gísla á óvart?

„Nei, það kom mér ekki á óvart, því ég veit nokkuð hverjum klukkan glymur. Okkar hús er bara peð í þessu tafli Minjastofnunar. Ráðandi öfl þar á bæ eru fyrst og fremst að koma í veg fyrir að nýtt skipulag af þessu svæði verði að veruleika, en þar er gert ráð fyrir fjórum nokkuð stórum fjölbýlishúsum á þessu svæði. Það er gott að eiga góða vini á réttum stöðum þegar mikið liggur við. En þessi afstaða Minjastofnunar er óskiljanlegur þvergirðingsháttur. Embættismönnum ríkisins á ekki að leyfast að vaða yfir kjörna fulltrúa bæjarsins, sem hafa þó umboð kjósenda.

Það er búið að skrifa mikið um þetta mál í fjölmiðlum, en engum kollegum þínum hefur dottið í hug að bjalla í okkur hjónin, sem eigum þó og búum í húsi, sem er þungamiðjan í þessu leikriti. Það gleður mig að þú hefur orðið fyrstur til.“

Skoðaðu gamlar myndir ...

En er ekki skiljanlegt, að Minjastofnun vilji halda í sögulega mynd hverfisins, sem er einn elsti byggðarkjarni Akureyrar?

„Skapti minn, skoðaðu nú gamlar myndir af þessu hverfi. Þar er í dag ekkert líkt því sem var í byrjun síðustu aldar og þú finnur ekki einu sinni samsvörun í myndum frá því upp úr miðri síðustu öld. Reyndar er svolítið erfitt að átta sig á því, þar sem húsin sjást varla lengur fyrir trjágróðri! Sögulegt gildi hverfisins var fyrst rofið með ljótum steyptum kössum fyrir miðja síðustu öld, en lögun þeirra var í engu samræmi við eldri byggingar. En mestur var skaðinn þegar gamli spítalinn var rifinn. Falleg, svipsterk bygging, en viðirnir úr henni voru nýttir í Skíðahótelið í Hlíðarfjalli. Allt þetta tal um að hér sé gamalt, heillegt spítalahverfi á sér því engin rök,“ segir Gísli og kveður fast að.

En nú segir í erindi Skipulagsdeildar bæjarins, að til greina komi að flytja húsið ykkar á lóð í Búðargili og setja það niður við  Lækjargötu. Á það heima þar?

„Nei, Skapti, þetta var einhver misskilningur milli mín og skipulagsdeildarinnar. Það kom ekki til greina að fara þangað með húsið okkar, enda er það held ég ekki framkvæmanlegt tæknilega séð. Ég vil hafa húsið áfram í þessu hverfi, t.d. nærri húsum frá sama tíma við Spítalaveg. Þar færi það vel og þar með yrði heildarmynd hverfisins samstæðari og fallegri. Við erum að biðja um leyfi til að færa gömlu „Sóttvörn“ um nokkrar húslengdir, en verði vilji Minjastofnunar að veruleika mun þetta litla fallega timburhús okkar verða eins og krækiber í helvíti innan um nýmóðins steypukassa, því það verður byggt á svæðinu. Ef ekki fjölbýlishús, þá raðhús eða einbýli. Þannig yrði heildarmynd hverfisins ósmekkleg og sundurlaus – fyrir tilverknað Minjastofnunar, sem þar með er farin að vinna gagnstætt við hlutverk sitt. Um leið verður húsið mitt ekki eftirsóknarvert og kemur til með að hríðfalla í verði. Minjastofnun er ef til vill tilbúin að greiða mismuninn. Húsið okkar stendur á steyptum kjallara, sem er barn síns tíma. Með flutningi hússins hefði ég fengið tækifæri til að endurbyggja steypta hlutann, færa hann nær kröfum tímans, auka lofthæð, bæta við snyrtingu og annað í þeim dúr. Nei, Minjastofnun leyfir mér ekki það sem hún hefur margsinnis leyft öðrum.“

Minjastofnun gæti sanngirni

„En fyrst þú minnist á lóð í Búðargili. Þar stóð hús frá sama tíma og mitt hús og hefur því væntanlega líka fallið undir ægivald Minjastofnunar. Einn daginn sá ég að hafist var handa við að gera það upp og gladdi það mig. Tók ég þá nokkrar myndir. Næst þegar ég átti leið um Gilið var húsið horfið. Hver einasta fjöl. Enginn sagði orð. Eigandinn seldi síðan bænum lóðina.

Á sínum tíma seldi bærinn gamla Lund við Eiðsvöll. Hann var þá að niðurlotum kominn, en það var laghentur smiður sem keypti. Hann mun hafa gefið þáverandi stjórnendum bæjarins vilyrði fyrir því að gera húsið upp. Hann gerði það með sínum hætti; byrjaði á því að fá sér vörubíl, sópaði gamla Lundi þar upp á pall og lét aka fúaspýtunum upp á hauga. Enda ekki ófúin fjöl í húsinu. Það var ónýtanlegt. Þetta var það eina sem skynsamlegt var að gera. Sennilega hefur snillingurinn og öðlingurinn Jón Gíslason gert sér grein fyrir því, að nefndir, bæjarstjórnir og stofnanir geta verið þungar í vöfum. Þess vegna ákvað hann að skjóta fyrst og spyrja svo. Síðan byggði Jón nýjan Lund á lóðinni, svipaðan þeim gamla. Enginn sagði orð.“

Ertu að meina að það eigi að gefa fólki frjálsar hendur við meðferð og nýtingu gamalla húsa?

„Nei, nei, alls ekki, en Minjastofnun verður að gæta sanngirni. Hún getur ekki bannað á einum stað, sem hún leyfir á öðrum. Ég hef alltaf verið aðdáandi gamalla húsa, í þeim líður mér best. En verndun þeirra má ekki standa í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu. Ég veit að Minjastofnun hefur leyft flutning fjölda gamalla húsa. Aldargamalt verkstæðishús við Strandgötu var flutt suður í Borgarfjörð í fyrra og fyrir skömmu sá ég að leyft var að flytja ríflega aldargamalt hús af Laugaveginum til Keflavíkur. Svonefnt Watnehús var flutt af Tanganum inn á Krókeyri, þar sem það grotnar niður. Mörg önnur hús hafa verið flutt milli bæja eða hverfa. Sum sögufræg, eins og Gröndalshús, sem tekið var af grunni sínum og gert upp. Síðan var það sett niður meðal jafningja í Grjótaþorpi. Þar sómir það sér vel.“

Úr samningi Gísla Sigurgeirssonar og Akureyrarbæjar: Kaupandi skal hafa lokið niðurrifi og eða flutningi fyrir 20. september árið 1993. „Ég er að falla á tíma!“ segir Gísli.

 

Keypti húsið til flutnings eða niðurrifs

En Gísli, þú keyptir þetta hús til niðurrifs eða flutnings á sínum tíma, en hafðir það í gegn að það fengi að standa á sínum stað. Í umræðunni hefur komið fram, að þú hafir þá barist fyrir því að hverfið fengi að halda sér á sögulegum forsendum. Af hverju þessi kúvending?

„Kúvending, þetta hefði nú afi þinn í Slippnum ekki kallað kúvendingu gæskur, í mesta lagi að hagræða seglum eftir vindi, til að ná siglingu. Sko, ég keypti húsið af Akureyrarbæ samkvæmt auglýsingu til niðurrifs eða til brottflutnings. Þá hafði ekki verið búið í húsinu í nær áratug og það að niðurlotum komið. Það var stuttu eftir að Hjörleifur Stefánsson hafði gert sína fyrstu húsakönnun á svæðinu. Þá sá hann enga ástæðu til að vernda þetta hús. Nú blæs að vísu annar vindur í hans segl, en ég á pappíra sem fyrirskipa mér að rífa húsið eða fara með það burt. Ef til vill geri ég það einhvern daginn. Sennilega best að skjóta fyrst og spyrja svo!

Við hjónin höfum verið hér í liðlega 30 ár. Samkvæmt heimildum höfum við búið á þeim tíma í Spítalavegi 11, Tónatröð 11 og nú í Tónatröð 8. Samt höfum við alltaf haft skjól í sama húsinu, sem aldrei hefur farið af sínum stað. En breytingar á götuheitum og númerum má rekja til síendurtekinnar endurskoðunar á deiliskipulagi svæðisins, sem hefur kostað bæjarsjóð haug af peningum.

En það er alveg rétt hjá þér Skapti, ég barðist fyrir því að þetta hverfi fengi að halda sér sem mest óbreytt, fyrst eftir að ég byrjaði að gera húsið upp. Ég vildi að vísu sjá ljótu steinkassana hverfa og þeir eru ekki inni á núgildandi skipulagi. Það hefur hins vegar ekki komist í verk að rífa þá. Ég vildi sjá hér vel hirt útivistarsvæði, göngustíga tengda öðrum hverfum, jafnvel skjólgóðan lund fyrir veislur íbúanna í hverfinu. En engar nýbyggingar, nema þá ef til vill líknardeild á vegum Sjúkrahússins. Því miður hefur þetta svæði verið illa hirt, það veður upp í sinu, sem er hættuleg Sjúkrahúsinu. Í einum sinubrunanum var farið að huga að rýmingu á nokkrum deildum þegar vindáttin breyttist og Sjúkrahúsið slapp fyrir horn. Nú er kerfillinn að feta sig lengra og lengra inn á þetta svæði.

Allt frá því ég flutti hingað hef ég suðað í bæjarstjórnendum með að slá þetta og hirða, en með litlum árangri.

Ég fann lítinn vilja til að friða hverfið, en strax eftir aldamót kom fram vilji til að þétta hér byggðina með veglegum höllum fyrir ,,kónga og drottningar“. Það var einlægur vilji þáverandi bæjarstjórnar að leyfa hér byggingar, stór einbýlishús á þremur pöllum, sem kosta á annað hundrað milljónir króna í byggingu. Þegar þetta var staðfest í skipulagi sá ég að barátta mín fyrir friðun svæðisins var töpuð. Fyrst svo var komið vildi ég fremur sjá hér fjölbýlishús heldur en einbýli fyrir þá efnameiri. Það er líka hagkvæmara, því hæðarmunur í landinu er mikill, sem kallar á pallabyggingar í einbýlishúsum og mikil tröppumannvirki upp að þeim. Í fjölbýlishúsum er hins vegar reiknað með að rétta þennan hæðarmun af með bílakjallara, jafnvel einum samtengdum kjallara fyrir öll húsin. Þess vegna styð ég áform SS-byggis um að byggja hér falleg fjölbýlishús.“

„Mótmælendur færri en margur heldur“

En það eru ekki allir sammála þér miðað við umræðuna að undanförnu. Til tæmis hefur verið bent á skriðuhættu og einnig vill fólk meina, að þetta skapi aukna umferð um Spítalaveginn, sem hann hafi ekki burði fyrir.

„Veit ég það Skapti, en hefur verið mælt hversu margir standa á bak við þennan „hávaða“ á samfélagsmiðlum? Ég skil granna mína svo sem ósköp vel. Þeir búa nú í friðsælu hverfi á fallegum stað og þeir óttast að sú kyrrð verði rofin. Þeir eiga þá bara að tilgreina það sem forsendur mótmælanna. Allt tal þeirra um að sögulegum menningarverðmætum verði eytt og að hverfið komi til með að hverfa í sjó fram í aurskriðum og annað í þeim dúr stenst ekki skoðun. Þeir eru reiðir mér grannar mínir góðir, hafa sakað mig um svik við „málstaðinn“ og gert því skóna, að mér hafi verið „mútað“ til stuðnings við fjölbýlishúsin. Ég hefði gaman af að vita hvar þeir peningar eru. Er svolítið blankur eins og er!“ sagði Gísli og hló.

En þeir sem mótmæla þessum áformum um byggingu fjölbýlishúsa hafa verið áberandi í umræðunni.

„Já, það er alveg rétt hjá þér, en eiga þeir að ráða sem hafa hæst? Er það lýðræði? Mótmælendur eru færri en margur heldur og að mínu mati mun færri en þeir sem sýnt hafa áhuga á að búa í þessum fyrirhuguðu byggingum. Þeir eru það margir, að í raun er kominn biðlisti eftir íbúðum í þessum glæsilegu húsum á besta stað í bænum. Þar er fyrst og fremst um að ræða fólk yfir miðjum aldri, gamla Akureyringa, sem hafa átt stóran þátt í að gera bæinn að því sem hann er. Þeir vilja njóta ævikvöldsins á fallegum stað, nærri allri þjónustu, þar sem þeir geta notið útsýnis yfir bæinn sinn og Pollinn. Er þeim það of gott?“ sagði Gísli í lok samtalsins.

Gamla spítalahverfið um 1940. Þarna er ekkert líkt því sem nú er, segir Gísli.

„Spítalahverfið eins og það eitt sinn var, en er ekki lengur,“ sagði Gísli þegar hann sýndi blaðamanni þessa mynd.

Að neðan: myndir af húsinu við Lækjargötu sem Gísli nefnir í viðtalinu. Hafist var handa við að gera húsið upp en það hvarf síðan án athugasemda að sögn Gísla, sem tók myndirnar.