Fara í efni
Skipulagsmál

Ósk eldri borgara um breytingu hafnað

Fyrsta skóflustunga að hinu nýja Holtahverfi var tekin í byrjun þessa árs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Meirihluti skipulagsráðs Akureyrar hafnaði í dag erindi Byggingafélagsins Hyrnu varðandi breytt skipulag á lóð við Hulduholt í hinu nýja Holtahverfi norðan Glerár. Óskað var eftir breytingu á útliti blokkar sem Hyrna vill taka að sér að byggja fyrir hóp eldri borgara.

Ásdís Árnadóttir fer fyrir hópnum og hefur unnið að því lengi að gera mögulega byggingu blokkar þar sem eldri borgarar geti keypt íbúðir á viðráðanlegu verði, eins og hún hefur orðað það. Þarna hafi loks fundist hentugur staður og verktaki sem tilbúinn var að taka verkið að sér. 

Ekki einhugur í ráðinu

„Meirihluti skipulagsráðs hafnar erindinu. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir fjölbýlishúsi með inndregna efstu hæð á þrjá vegu og er það vilji meirihluta ráðsins að því formi verði haldið,“ segir í fundargerð frá því í morgun.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla og fer því ekki fyrir bæjarstjórn.

Þrír höfnuðu erindinu en tveir voru á öndverðum meiði við meirihluta ráðsins. Ólöf Inga Andrésdóttir, L-lista, og Sindri Kristjánsson, Samfylkingu, bókuðu eftirfarandi:

„Undirrituð lýsa yfir vonbrigðum með afstöðu meirihluta skipulagsráðs í þessu máli. Í málinu hefur verið óskað eftir minniháttar breytingu á deiliskipulagi til að koma til móts við hóp eldra fólks í bænum sem upplifir skort á hentugu húsnæði fyrir sig. Að okkar mati væri rétt að samþykkja þessa ósk um breytingu með það að leiðarljósi að tryggja sem fjölbreyttasta samsetningu íbúa í nýju Holtahverfi norður.“

Bíða spennt eftir fundi skipulagsráðs