Fara í efni
Skipulagsmál

Óháður erlendur aðili meti álit Landsnets

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrar vill að óháður, erlendur aðili leggi mat á það álit Landsnets að ekki sé hægt að leggja Blöndulínu 3 í jörðu innan þéttbýlis á Akureyri. Ráðið telur að ekki ætti að halda áfram með málið fyrr en ótvíræð niðurstaða liggur fyrir.

Um er að ræða háspennulínu sem allir eru sammála um að mikil þörf sé á en deilt er um aðferð við lagningu línunnar. 

Fjallað var um málið á fundi ráðsins í fyrradag þar sem lögð voru fram drög að umsögn vegna lagningar Blöndulínu í gegnum land Akureyrarbæjar frá norðri og að Rangárvöllum. Breyta þarf aðalskipulagi vegna lagningar þessa háspennustrengs og frestur til að gera athugasemdir við breytingu skipulagsins rennur út í dag.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, sagði við Akureyri.net í gær að það væri krafa bæjarins – og hafi alltaf verið – að hluti línunnar innan bæjarmarkanna verði lagður í jörðu án þess að kostnaður við það falli á bæinn. Landsnet vill að háspennustrengurinn verði allur loftlína.

Gríðarlegir hagsmunir

Umhverfis- og mannvirkjaráðið samþykkti eftirfarandi:

„Um er að ræða gríðarlega mikla hagsmuni Akureyrarbæjar, enda ljóst að umrædd lína þrengir að því landlitla sveitarfélagi sem Akureyrarbær er, getur hindrað vöxt þess og er líkleg til að rýra gæði þeirrar byggðar sem fyrir er. Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem um ræðir er nauðsynlegt að óháður erlendur aðili leggi mat á álit Landsnets að ekki sé hægt að leggja Blöndulína 3 í jörðu innan þéttbýlis Akureyrarbæjar. Ekki ætti að halda áfram með málið fyrr en sú ótvíræða niðurstaða liggur fyrir. Ef niðurstaðan verður sú að aðrar leiðir eru ekki færar, er nauðsynlegt að samið verði um að línan fari í jörðu eins fljótt og kostur er, án þess að Akureyrarbær beri umræddan kostnað og að sá samningur liggi fyrir áður en gerðar verði breytingar á skipulagi sveitarfélagsins. Þá vekur umhverifis- og mannvirkjaráð athygli á því að umrædd loftlína myndi rýra græna trefilinn umtalsvert.“

Græni trefillinn svokallaði er grænt svæði sem hafist var handa við fyrir mörgum árum og ætlunin er að nái umhverfis byggðina á Akureyri.