Fara í efni
Skipulagsmál

Óboðleg vinnubrögð eða hið besta mál?

Fyrirhugaðar byggingar að Naustagötu 13 séðar frá ýmsum hliðum. Skjáskot úr umsókn Kollgátu.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna byggingarreits að Naustagötu 13, skipulagsreit VÞ13.

Skoðanir í bæjarstjórn um réttmæti þessarar ákvörðunar eru skiptar, einkum vegna þess hve mikið byggingarskilmálum er breytt án þess að fara með lóðina í gegnum ferli þar sem öðrum en núverandi lóðarhafa yrði gert kleift að bjóða í lóðina eða fara með hana í gegnum ferli sem þróunarreit. Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, segir vinnubrögð bæjarstjórnar óboðleg við þessa afgreiðslu.

Bæjarstjórn samþykkti afgreiðsluna með sex atkvæðum, Andri Teitsson (L), Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B) og Gunnar Már Gunnarsson (B) sátu hjá og Hilda Jana Gísladóttir (S) og Ásrún Ýr Gestsdóttir (V) greiddu atkvæði gegn henni. 

Loftmynd sem sýnir skipulagsreitina á svæðinu og afstöðu til aðliggjandi íbúðabyggðar. Skjáskot af map.is/akureyri.

Sóttu um framkvæmdafrest í febrúar

Upphafleg úthlutun lóðarinnar Naustagötu 13 til Kistu byggingarfélags var ákveðin af skipulagsráði 12. október 2022. Í febrúar 2024 var óskað eftir framkvæmdafresti, en skipulagsráð samþykkti þá ekki að veita frekari frest til framkvæmda á lóðinni og leit svo á að fresturinn rynni út 5. júní.

Aftur kom umsókn frá lóðarhafa um framkvæmdafrest til afgreiðslu í skipulagsráði 10. apríl, þá sótt um frest til eins árs, en skipulagsráð samþykkti að veita umsækjanda frest til 5. september til að leggja fram tillögu að uppbyggingu á lóðinni. „Forsenda slíkrar tillögu er að byggingarmagn fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð haldist óbreytt frá gildandi deiliskipulagi,“ segir í afgreiðslu ráðsins 10. apríl. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista bókaði þá að hún teldi ekki forsvaranlegt að taka aftur mál á dagskrá sem afgreitt var 28. febrúar án þess að breytingar hafi orðið á forsendum. Sagði slík vinnubrögð ekki gefa gott fordæmi.

Horft til norðurs úr Davíðshaga yfir lóðina Naustagötu 13. Gert er ráð fyrir aðkomu að fyrirhuguðum húsum af hringtorginu handan lóðarinnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Grundvallarbreytingar á skilmálum

Meginbreytingin sem lögð var fyrir skipulagsráð í júlí og bæjarstjórn samþykkti í gær að auglýsa felst í endurskilgreiningu reitsins fyrir blandaða notkun verslunar, þjónustu og íbúðabyggðar og verulega auknu byggingarmagni í samræmi við hugmyndir Kistu byggingarfélags um að byggja fimm hæða hús á vesturhluta lóðarinnar með íbúðum á efri hæðum.

Akureyri.net sagði ítarlega frá hugmyndum Kistu í júlí í framhaldi af afgreiðslu málsins í skipulagsráði.

Ekki tilviljun að þurfi lögfræðiálit

Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar (D), kynnti málið og sagði það hafa verið mjög lengi í bígerð, hafa farið fram og til baka í kerfinu allt frá árinu 2017. Hann sagði málið vera mikilvægt fyrir íbúa í hverfunum, mögulega hefði átt að auglýsa reitinn sem þróunarreit, en ákveðið hafi verið að fara þessa leið.

Varðandi heimild bæjarstjórnar og það hvort jafnræðis væri gætt vísaði Heimir Örn meðal annars í lögfræðiálit sem fengið var í tengslum við síðustu afgreiðslu skipulagsráðs.

Hilda Jana benti einmitt á að það væri engin tilviljun að það lægi lögfræðiálit til grundvallar málinu því það væri ekki yfir allan vafa hafið. Mikil áhersla væri á jafnræðissjónarmið í lögfræðiálitinu og að ef skipulagsráð vilji fara þessa leið sem um ræðir verði það að vera á forsendum þess að það séu sérstök, gild og málefnaleg sjónarmið fyrir því að fara ekki eftir jafnræðissjónarmiði. Í því sambandi kallaði hún eftir slíkri skýringu frá meirihlutanum því slíkar ástæður hafi ekki komið fram í málflutningi né í bókun meirihlutans.

„Þetta finnst mér óboðleg vinnubrögð bæjarstjórnar og það er það sem ég vil árétta að í þessu lögfræðiáliti kemur skýrt fram að það er bara bæjarstjórn sem í dag er að taka þá ákvörðun hvort hún telji að það séu fyrir hendi sérstök, málefnaleg og gild sjónarmið fyrir því að hleypa ekki öðrum að því að sækjast eftir þessum takmörkuðu gæðum sem er gjörsamlega búið að gjörbreyta í eðli sínu.“

Jafnræði í því að auglýsa þróunarreit

Þá benti hún á að í stöðunni væru þrjár leiðir sem hún sæi að skipulagsráð hefði haft úr að velja á þessum tímapunkti.

  • Sú fyrsta væri að bíða eftir því að einhver vildi byggja á lóðinni miðað við núverandi skilmála, en það væri þó ekki þolinmæði fyrir því vegna þess að íbúar hverfanna kölluðu eftir bættri þjónustu á svæðinu.
  • Ef skipulagsráð og bæjaryfirvöld teldu þörf á að breyta skipulaginu hefði það verið hægt og þá síðan að auglýsa lóðina aftur.
  • Þriðji kosturinn hefði getað gengið hraðar og jafnræðis verið gætt með því að auglýsa reitinn sem þróunarreit þar sem allir sem hefðu á því áhuga hefðu tækifæri til að senda inn sína tillögu að því hvernig þessari uppbyggingu gæti verið háttað.

„Í staðinn er aðeins einn aðili sem sækist eftir þessum takmörkuðu gæðum í eigu almennings, og þið gerið ykkur alveg grein fyrir því og allir sem það vilja vita, vita að það er gríðarlegur munur á verðmæti lóðar sem er skilgreind sem verslun og þjónusta á einni hæð eða fimm hæða hús þar sem er heimild fyrir íbúðum á efri fjórum hæðum. Mér finnst það algjör frumskylda okkar bæjarfulltrúa að gæta jafnræðis í okkar meðförum, nema ef að fyrir því eru sérstök málefnaleg og gild sjónarmið,“ sagði Hilda Jana meðal annars á bæjarstjórnarfundinum.


Norðurhliðar bygginganna sem Kista byggingarfélag hefur í hyggju að reisa við Naustagötu 13. Gert er ráð fyrir aðkomu að húsunum af hringtorginu. Skjáskot úr umsókn Kollgátu.

„Ég vil ekki trúa því að við viljum ganga svona fram. Þetta finnst mér siðferðislega rangt. Mér finnst þetta ekki gott fordæmi,“ sagði Hilda Jana og lýsti áhyggjum af þeim áhrifum sem svona ákvarðanir hafi til lengri tíma á stjórnsýsluna. „Ég vil í alvöru talað að þið veltið aðeins fyrir ykkur hvar við stöndum á þessum tímapunkti, hvort þið í alvörunni, heiðarlega og hreinskilið getið horft framan í það að þetta sé eðlilegt. Mér finnst þetta ekki í lagi.”

Hilda Jana lagði áherslu á að hún myndi greiða atkvæði gegn þessum gjörningi, ekki á þeirri forsendu að hún sé andsnúin uppbyggingunni. Heldur sé hún andsnúin því hvernig einn aðili fái tækifæri til að sækjast eftir takmörkuðum gæðum, allt öðrum takmörkuðum gæðum en voru auglýst í boði fyrir aðra.

Sérstök, gild eða málefnaleg sjónarmið ekki til staðar

Bókun Hildu Jönu í við afgreiðslu málsins var svohljóðandi:

Það er óboðlegt að bæjarstjórn gæti ekki jafnræðis við úthlutun takmarkaðra gæða almennings, nema að fyrir því séu sérstök, málefnanleg og gild sjónarmið. Þar sem slík sjónarmið eru ekki fyrir hendi í þessu máli, þá getur ákvörðunin varla staðist skoðun.

Það getur ekki verið réttlætanlegt að einum aðila sé gert kleift að gjörbreyta gildandi skipulagi, úr lóð þar sem byggja má hús á einni hæð fyrir verslun og þjónustu, yfir í fimm hæða hús fyrir verslun, þjónustu og íbúðir á efri hæðum, án þess að fyrir því séu mjög sterk, sérstök, málefnaleg og gild sjónarmið. Eðlilegt hefði verið að öllum hefði gefist kostur á að sækjast eftir umræddri lóð á gjörbreyttum forsendum, enda geta þær breytingar sem hér um ræðir haft veruleg áhrif á verðmæti lóðarinnar.

Ég mótmæli því harðlega þeirri leið sem meirihluti bæjarstjórnar leggur til hér í dag og greiði atkvæði gegn þessum gjörningi. Það breytir því þó ekki að ég tel mikilvægt að koma upp verslun og þjónustu á umræddu svæði hið fyrsta og tel að hægt hefði verið að gæta jafnræðis og flýta fyrir uppbyggingu, t.d. með því að auglýsa lóðina sem þróunarreit.

Ákvörðun breytt án breyttra forsendna

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Framsókn, hafði áður bókað gegn afgreiðslu skipulagsráðs í apríl þegar umsókn lóðarhafa um frest var tekin fyrir að nýju eftir að hafa verið hafnað fyrr á árinu. „Af einhverri óskiljanlegri ástæðu kemur málið aftur inn í skipulagsráð í apríl á sömu forsendum,“ sagði Sunna Hlín meðal annars á bæjarstjórnarfundinum. „Einhverjir segja kannski að því hafi ekki verið svarað nógu vel þarna í febrúar þar sem við neitum frestinum, en mér finnst það liggja í augum uppi þegar við neitum frestinum að við ætlum að taka lóðina og breyta skipulaginu sjálf. Þannig að þetta voru vinnubrögð sem voru okkur ekki til framdráttar.“

Bókun Sunnu Hlínar í bæjarstjórn í gær var svohljóðandi:

Það hefur verið vilji til þess að breyta skipulagi lóðar 13 eða verslunar- og þjónustulóðar á mörkum Nausta- og Hagahverfis í einhvern tíma þar sem nú er gert ráð fyrir einnar hæðar verslunarhúsi og stóru bílastæði.

Í því samhengi hefur verið nefnt að þarna gæti risið húsnæði í anda Kaupangs. Sú hugmynd sem lóðarhafi hefur kynnt fyrir skipulagsráði er mikil breyting á upprunalegu skipulagi og ég óttast að bílakjallari og lítið bílastæðamagn, sem og fjöldi íbúða á fimm hæðum, muni rýra möguleika þess að minni rekstraraðilar hefji þarna rekstur.

Eins tel ég óeðlilegt að einum aðila sé heimilt að breyta skipulagi svo verulega og jafnræðis því ekki gætt. Skipulagsráð bókaði í febrúar að ekki yrði framlengdur frestur til að hefja framkvæmdir á lóðinni og var það skilningur minn að vilji væri til þess að breyta skipulagi lóðarinnar og auglýsa hana aftur. Að öllum yrði gert kleift að sækja um hana á breyttum forsendum. Þeirri ákvörðun var svo snúið í skipulagsráði í apríl þegar málið var tekið upp aftur án breyttra forsenda. Vinnubrögð sem eru okkur ekki til framdráttar.

Bókun meirihlutans

Bæjarfulltrúar Heimir Örn Árnason D-lista, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista, Inga Dís Sigurðardóttir M-lista, Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista og Jón Hjaltason óháður létu bóka:

Við teljum ríka hagsmuni fyrir sveitarfélagið að uppbygging á umræddri lóð hefjist sem fyrst og að þar rísi húsnæði fyrir þjónustufyrirtæki. Breytingarnar sem verið er að óska eftir samræmast vel því skipulagi sem unnið er að á lóðum austan Naustagötu 13 og falla vel að markmiðum um aukna uppbyggingu íbúða sem kallað er eftir á landsvísu. Við samþykkjum því breytingu á skipulaginu en teljum þó mikilvægt að byggingarréttargjald verði sett á íbúðafermetra til samræmis við aðrar lóðir í sveitarfélaginu s.s. Móahverfi.

Umræðurnar í heild um þetta mál á bæjarstjórnarfundinum má sjá í spilaranum hér að neðan.