Fara í efni
Skipulagsmál

Ný gangbrautarljós á Glerárgötu

Yfirlitsmynd sem sýnir leiðir gangandi og hjólandi í tengslum við núverandi gönguþverun og staðsetningu nýrra gangbrautarljósa. Skjáskot úr minnisblaði Vegagerðarinnar.

Ný gangbrautarljós – eða gönguþverun með umferðarljósum, eins og það heitir á tæknimáli – verða sett upp á Glerárgötu skammt sunnan við gatnamót Glerárgötu, Grænugötu og Smáragötu, sjö metrum sunnar en núverandi gangbraut yfir Glerárgötuna. Skipulagsráð hefur falið skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi til Vegagerðarinnar vegna þessarar framkvæmdar. 

Gárungar gætu þá kannski spurt hvort hugmyndir um Glerárgötu í stokk séu úr sögunni. Það er þó annar og mun stærri handleggur.

Vegagerðin hefur unnið við umferðaröryggisaðgerðir á hringveginum, Þjóðvegi 1, í gegnum þéttbýli Akureyrar undanfarin ár, að því er fram kemur í minnisblaði hennar um þetta verkefni. Áætlað er að samræma öryggi á gönguþverun við Grænugötu og Smáragötu við aðrar þveranir á hringveginum innan þéttbýlis á árinu 2023.

Samkvæmt viðmiðum um fjölda gangandi og hjólandi til móts við umferð er gert ráð fyrir gönguþverun með umferðarljósum sem kviknar á þegar vegfarendur ýta á takka, segir í minnisblaðinu. Þessi uppfærsla miðar við núverandi aðstæður þar sem skipulag fyrir fyrirhugaða uppbyggingu á Akureyrarvelli hefur ekki verið gerð. Ástæða þess að gangbrautarljósin verða sett upp á áðurnefndum stað, sjö metrum sunnar en núverandi gangbraut, en ekki nær Ráðhúsinu og á móts við göngustíg yfir Eiðsvöll (sjá fjólublátt strik á skýringarmynd) er að talið er að sú staðsetning sé of nálægt gönguþverun við Gránufélagsgötu og henti ekki umferðarflæði gangandi/hjólandi umferðar.

Séð norður Glerárgötu að gönguþverun norðan Gránufélagsgötunnar. Ný gönguþverun bætist við nokkru norðar, þegar kemur að mótum Glerárgötu, Smáragötu og Grænugötu. Mynd: Haraldur Ingólfsson

„Eini vegfarendahópurinn sem hefði hag af því að staðsetja þverun til móts við stíg á Eiðsvelli væru þeir sem eru að sækja í eða koma frá Ráðhúsinu. Óheppilegt væri að draga aðra vegfarenda hópa í gegnum bílastæði Ráðhússins þar sem ekki er skilgreind göngu- eða hjólaleið,“ segir ennfremur í minnisblaðinu. 

Gert er ráð fyrir að rafmagn að búnaði verði lagt í haust með tilheyrandi jarðvinnu og uppsetningu, en ljósabúnaður settur upp í samráði við Akureyrarbæ í vetur.