Fara í efni
Skipulagsmál

Nokkrar breytingar á tillögu að Móahverfi

Deiliskipulag Móahverfis hefur verið auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu fyrir svæðið. Móahverfi er nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar í Síðuhverfi.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið unnið úr ábendingum frá íbúum, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum auk þess sem vindgreining var gerð ásamt frekari skoðunum á svæðinu. Hafa í kjölfarið verið gerðar nokkrar breytingar á upphaflegri tilllögu. Nokkur dæmi:

  • Torg/dvalarsvæði flyst nær Borgarbraut ásamt byggingum í kring þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Bætt er við aðkomu að þessari lóð frá Borgarbraut.
  • Trjágróðri er bætt við á svæðum sem eru óvarin fyrir norðlægum vindáttum. Einnig eru gerðar breytingar á legu og lögun nokkurra fjölbýlishúsa, einkum meðfram Síðubraut, vegna niðurstöðu vindgreiningar.
  • Formi, uppröðun og hæð fjölbýlishúsa er breytt lítillega á nokkrum stöðum sem hefur í för með sér að íbúðafjöldi eykst aðeins. Í heildina er gert ráð fyrir allt að 1.100 íbúðum á svæðinu.
  • Gert er ráð fyrir íþróttasvæði syðst á skipulagssvæðinu þar sem mögulegt er að koma fyrir sparkvöllum eða samfelldu gras-/gervigrassvæði.
  • Bætt er við undirgöngum undir Borgarbraut á móts við gönguás og grænt svæði sem liggur í gegnum mitt hverfið. 

Skipulagið hefur nú verið auglýst formlega samkvæmt skipulagslögum og er hægt að nálgast auglýsinguna hér. Hægt er að skila inn athugasemdum til og með 25. apríl næstkomandi.

Smelltu hér til að skoða vefsvæði Móahverfis, en þar eru allar helstu upplýsingar um fyrirhugaða uppbyggingu og skipulagsferlið frá upphafi. Vefsvæðið er uppfært reglulega, að því er segir á vef Akureyrarbæjar.

Smelltu hér til að sjá deiliskipulagsuppdrátt.

Smelltu hér til að sjá aðalskipulagsuppdrátt.