Skipulagsmál
Munu bjóða út hótellóð við Jaðarsvöll
19.01.2024 kl. 12:30
Bæjarráð samþykkti í vikunni að lóð undir hótel við Jaðarsvöll verði úthlutað með útboðsleið, að tillögu skipulagsráðs. Forsaga málsins nær reyndar alveg aftur til 2011, en síðan þá hefur verið gert ráð fyrir möguleika á að byggja hótel á svæði við golfskálann. Skriður komst síðan loks á málið með samningi bæjarins við Golfklúbb Akureyrar í september eins og lesa má í frétt á Akureyri.net þegar undirritaður var samningur milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbsins um uppbyggingu á svæði klúbbsins.
Á næstu vikum mun Akureyrarbær auglýsa útboð á byggingarréttinum og verður miðað við ákveðið lágmarksverð, einfaldlega vegna þess að uppbygging eins og þessi hefur í för með sér töluverðar framkvæmdir fyrir bæinn og miðast lágmarksverðið við að standa undir þeim kostnaði. Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar, segir að heyrst hafi af áhuga fyrir þessari uppbyggingu, en það komi svo í ljós í útboðinu hversu raunverulegur hann er. Gera má ráð fyrir að útboðið verði opið í allt að fjórar vikur frá því að auglýsingum það verður birt. Að því loknu þarf að fara yfir tilboð og hefja viðræður við bjóðendur og því erfitt að segja til um það núna nákvæmlega hvenær niðurstöðu er að vænta, en Pétur Ingi segir að vonandi verði það með vorinu.
Mynd sem Þórhallur Jónsson, þáverandi bæjarfulltrúi og formaður skiplagsnefndar Akureyrar, birti á Facebok síðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar vorið 2022. Ekki er að marka útlit hússins en þarna sést hvar byggingin yrði staðsett.