Fara í efni
Skipulagsmál

Minningarskilti kylfinga um Nýrækt afhjúpað

Minningarskilti um golfvöllinn Nýrækt, þar sem Golfklúbbur Akureyrar (GA) hafði aðsetur frá 1945 til 1970, verður afhjúpað í dag, laugardag. Skiltið verður við götuna Mosateig, á milli Verkmenntaskólans og Þórunnarstrætis – þar sem 8. flöt vallarins var á sínum tíma!

Athöfnin hefst klukkan 16.00 og eru allir velkomnir sem vilja kynna sér sögu golfíþróttarinnar á Akureyri.

Sagan af því hvernig GA eignaðist hið stóra landsvæði að Jaðri, þar sem hann klúbburinn hefur verið með starfsemi í liðlega hálfa öld, er í raun stórmerkileg.

Helgi Skúlason, augnlæknir (1893-1982) var mikill áhugamaður um golfíþróttina og var formaður GA í níu ár. Segja má að hann hafi verið mestur forgöngumaður um gerð golfvallarins við Þórunnarstræti en Helgi lánaði GA 55.000 krónur árið 1945 fyrir kaupum á svæðinu, sem kallað var Nýrækt, og var það síðan endurgreitt án verðbóta á 20 árum.

Golfklúbburinn og Akureyrarbær höfðu síðan makaskipti tæpum aldarfjórðungi síðar; bærinn eignaðist Nýrækt, þar sem nú er íbúabyggð, og GA fékk jörðina Jaðar í staðinn. Því er óhætt að segja að þáttur Helga Skúlasonar augnlæknis í sögu golfsins hér á Akureyri sé óumdeildur.

Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi Golfklúbbs Akureyrar, mun segja nokkur orð við Mosateig og síðan eru gestir boðnir velkomnir í skálann á Jaðri í kaffi þar sem Gísli mun fara yfir söguágrip klúbbsins og segja skemmtilegar sögur frá golfvellinum við Þórunnarstræti.