Fara í efni
Skipulagsmál

Minjastofnun fellst ekki á flutning húss úr Tónatröð

Minjastofnun fellst ekki á að húsið númer 8 við Tónatröð á Akureyri verði fjarlægt. Húsið er aldursfriðað einlyft timburhús með kjallara og risi, byggt á árunum 1905 og 1906. Vegna fyrirhugaðrar byggingar fjölbýlishúsa við Tónatröð vilja skipulagsyfirvöld færa húsið á lóð í neðsta hluta Lækjargils, Lækjargötu 8.

„Minjastofnun fellst ekki á beiðni um að húsið verði fjarlægt, hvort sem um ræðir niðurrif eða flutning ...“ segir í svari stofnunarinnar við erindi skipulagsfulltrúa bæjarins.

„Töluvert varðveislugildi“

Í svari Minjastofnunar er vísað til þess að Sóttvarnarhúsið, eins og það var kallað, sé hluti af húsnæðissögu Sjúkrahússins á Akureyri og tilheyri þeirri heild sem spítalabyggingarnar mynda. „Að því leyti hefur húsið töluvert varðveislugildi ásamt Spítalavegi 9 og 13,“ segir í svarinu.

Stofnunin vísar í Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg á Akureyri frá 2009 þar sem kemur fram að Tónatröð 8 hafi í upphafi verið reist sem sóttvarnarhús á grundvelli sóttvarnarlaga sem sett voru árið 1903. „Sigurður Bjarnason trésmiður byggði húsið á grundvelli teikningar Guðmundar Hannessonar héraðlæknis. Ekki er ólíklegt að Guðmundur hafi valið sóttvarnarhúsinu stað í næsta nágrenni spítalans.“

Í svari Minjastofnunar segir meðal annars: „Af erindinu verður ekki ráðið að niðurrif Tónatraðar 8 sé nauðsynlegt vegna tæknilegs ástands hússins eða yfirvofandi hættu. Minjastofnun hefur stuðst við þá meginreglu að friðuð hús og mannvirki beri að varðveita á sínum upprunastað sé þess nokkur kostur, ekki síst ef verndargildi þeirra tengist á einhvern hátt staðsetningu þess og sögulegu samhengi.“

Flutningur ekki forsenda uppbyggingar

Í svarinu segir einnig: „Samkvæmt byggða- og húsakönnun við Spítalaveg er Tónatröð 8 talið tilheyra þeirri heild sem spítalabyggingarnar mynda og sem Guðmundur Hannesson læknir, einn helsti frumkvöðull skipulagsmála á Íslandi, átti þátt í að móta. Að þessu virtu er það mat Minjastofnunar að mögulegt sé að skipuleggja nýja íbúðarbyggð við Tónatröð án þess að húsið Tónatröð 8 verði flutt af núverandi stað. Því ber hið friðaða hús að njóta vafans enda hefur ekki verið sýnt fram á að flutningur þess sé forsenda fyrir nýtingu nálægra lóða til uppbyggingar.“

Skipulagsráð Akureyrar hefur falið skipulagsfulltrúa að óska eftir frekari rökstuðningi Minjastofnunarinnar fyrir ákvörðuninni.

Tónatröð 8, Sóttvarnarhúsið, er lengst til vinstri með rauðu þaki. Sjúkrahúsið hægra megin á myndinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hugmyndir verktakans um uppbyggingu við Tónatröð. Umrætt hús stendur þar sem rauði hringurinn hefur verið dreginn.

Tónatröð 8 með rauða þakinu hægra megin á myndinni. Vinstra megin er ekið niður Spítalaveg. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson