Fara í efni
Skipulagsmál

Mikil vonbrigði að rífa eigi Lund

Stórbýlið Lundur þar sem nú er Lundahverfi. Jakob Karlsson kaupmaður reisti Lund árið 1925 að fyrirmynd erlendra búgarða. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Eðvarð Sigurgeirsson

Samtökin Arfur Akureyrarbæjar, sem stofnuð voru formlega á 160 ára afmæli bæjarins 29. ágúst á síðasta ári, gera alvarlegar athugasemdir  við tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Viðjulund 1 sem gerir ráð fyrir niðurrifi á gamla stórbýlinu Lundi.

Í ályktun stjórnar samtakanna, sem sjá má í heild hér að neðan,  er meðal annars bent á að í umsögn Minjastofnunar komi fram að húsaskráning, sem Akureyrarbær lét gera í tengslum við tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið, uppfylli ekki staðla og teljist því ekki fullgild. Stjórnin bendir einnig á að húsið eigi merka sögu sem eitt stærsta kúabú við Eyjafjörð á tímabili. „Það væri því sérlega mikill fengur að því að varðveita þetta merka hús, sem minnisvarða um búskap á brekkunni.“
_ _ _

Ályktun frá Arfi Akureyrarbæjar um tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Viðjulund 1

Á 411. fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar var afgreidd tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð sem stendur við Viðjulund 1. Við afgreiðsluna voru lagðar fram 10 athugasemdir sem bárust á kynningartíma auk umsagna frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku. Meirihluti skipulagsráðs samþykkti á fundinum að gera breytingar á framlögðum tillögum til að koma til móts við innsendar athugasemdir. Gera breytingarnar ráð fyrir því að fyrirhuguð sjö hæða fjölbýlishús verði lækkað niður í sex hæðir.

Gerir Arfur Akureyrarbæjar ekki athugasemdir við fyrirhugaðar byggingar sem slíkar enda þótt hafa megi skoðanir á því hversu vel þær falla að núverandi byggð sem er öllu lágreistari. Þau áform sem samtökin gera alvarlegar athugasemdir við er niðurrif núverandi byggingar, býlisins Lundar sem var reist árið 1925 og er því um aldargamalt. Byggingarnar sem tilheyra Lundi eru umsagnarskyldar skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, með áorðnum breytingum 2022, en þar er kveðið á um umsagnarskyldu vegna niðurrifs eða breytinga bygginga frá árunum 1925-40. Þegar þessi afgreiðsla fór fram lá umsögn Minjastofnunar fyrir. Þar segir orðrétt:

Eldra búsetulandslag brekkunnar er að mestu horfið undir skipulagða íbúðabyggð. Með því að fjarlægja þessi hús yrðu öll ummerki um sögu þessa bæjarhluta í umhverfinu og þetta gamla býli sem hverfið dregur nafn sitt af, horfin. Minjastofnun telur niðurrif Lundar, þá sérstaklega íbúðarhússins, rýra gildi byggðarinnar í þessum hluta bæjarins.

Í umsögn Minjastofnunar kemur einnig fram að húsaskráning, sem Akureyrarbær lét gera í tengslum við tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið, uppfylli ekki staðla og telst hún því ekki fullgild. Athugasemdir Minjastofnunar snúa helst að því að í könnunina hafi vantað umfjöllun um sögu býlisins Lundar, sem er einmitt meginþáttur í mati á þýðingu þess fyrir svæðið. Um er að ræða nokkuð einstakt hús, hönnuður ókunnur en byggingarlag hússins virðist undir áhrifum frá dönskum búgörðum, sem m.a. Guðjón Samúelsson sótti nokkuð í. Það vakti einmitt fyrir húsbyggjanda að reisa nokkurs konar búgarð. Þá á húsið merkilega sögu, var m.a. eitt stærsta kúabú við Eyjafjörð á tímabili. Það væri því sérlega mikill fengur að því að varðveita þetta merka hús, sem minnisvarða um búskap á brekkunni.

Það er ekki að sjá, að skipulagsráð geri nokkuð með umsögn Minjastofnunar heldur skal áfram haldið með fjölbýlishúsaskipulagið eins og ekkert hafi í skorist. Það er verulega ámælisvert að skipulagsráð virði umsögn Minjastofnunar Íslands að vettugi, sér í lagi þegar umsögnin felur í sér slíkar athugasemdir sem fram koma hér að framan. Þá skal einnig áréttað að samkvæmt skipulagsreglugerð er skylt að leggja mat á varðveislugildi og svipmót byggðar í þegar byggðum hverfum með gerð húsakönnunar. Þar er jafnframt kveðið á um að sett séu markmið og skilmálar um verndun og viðhald á grunni þeirrar könnunar. Það er því með öllu óásættanlegt að áfram skuli haldið með niðurrifsáform þegar ljóst er að húsakönnunin sem nú liggur til grundvallar stenst ekki staðla Minjastofnunar.

Samtökin Arfur Akureyrarbæjar lýsa yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun skipulagsráðs að rífa íbúðarhúsið að Lundi og telja að betur hefði farið á því, að varðveita húsið. Niðurrif eldri bygginga ætti ætíð að vera síðasta úrræði og rétt væri að koma til móts við verktaka og húseigendur og skapa hvata til þess, að endurbyggja eldri byggingar fremur en að rífa þær. Samtökin Arfur Akureyrarbæjar hvetja jafnframt skipulagsyfirvöld til þess að láta óháða fagaðila vinna nýja húsakönnun fyrir svæðið sem uppfyllir staðla Minjastofnunar Íslands.