Fara í efni
Skipulagsmál

Mikið breytt tillaga um Borgarbíóreitinn

Mynd úr kynningu Nordic arkitekta. Lengst til vinstri er teiknað hótel þar sem Sjallinn stendur nú. Hugmyndir eru um það verkefni, en rétt að taka fram að það tengist ekki þeim hugmyndum sem hér ræðir um.

Tillaga að breyttu skipulagi á Borgarbíóreit og nágrenni var kynnt á fundi Skipulagsráðs Akureyrar í morgun og tók ráðið jákvætt í umræddar hugmyndir að uppbyggingu. Nái þær fram að ganga verður um að ræða verulega breytingu á svæðinu.

Ein helsta breytingin frá fyrri tillögu er að í stað bílastæðahúss vestan Túngötu, gegnt Borgarbíói, þar sem nú er stórt bílastæði, verði byggð 3 - 4 hæða íbúðahús. Bílastæði verði aftur á móti neðanjarðar; samtengdur bílakjallari fyrir allt svæðið. Gert er ráð fyrir 100 bílastæðum.

Sem fyrr er gert ráð fyrir að rífa bæði Borgarbíó (Hólabraut 12) og JMJ-húsið (Gránufélagsgötu 4). Í staðinn komi sex hæða hús með inndreginni efstu hæð; verslun og þjónustu verði á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Í gamla Arion banka húsinu, Geislagötu 5, verði skrifstofur eða önnur atvinnustarfsemi. Auk þessara húsa snýst tillagan um Hólabraut 13 (þar sem RÚV er til húsa) og bílastæðið austan Brekkugötu 4 - 12; eða vestan Túngötu, vilji menn frekar orða það þannig! Sem sagt, bílastæðin gegnt Borgarbíói.

Skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa að skoða málið áfram í samráði við Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.
_ _ _
 

FYRRI TILLAGA

Gert var ráð fyrir að rífa Borgarbíó og JMJ húsið og reisa í þeirra stað sex hæða hús með inndreginni efstu hæð ásamt kjallara. Rými fyrir bíla voru hugsuð í opnu bílastæðahúsi vestan Túngötu - lengst til hægri á myndinni að ofan. Þar er nú stórt bílastæði. 

NÝJA TILLAGAN

Horn Gránufélagsgötu og Túngötu skv. nýju tillögunni. Horft af bílastæði við Vínbúðina. Eins og sjá má er gert ráð fyrir að Hólabraut 13 víki; gamla Zion, þar sem Ríkisútvarpið er m.a. til húsa.

„Með því að byggja íbúðarhús vestan megin við Túngötu styrkist götumyndin og styrkir einnig bæjarmyndina á mikilvægum stað í bæjarlandinu. Gránufélagsgata styrkist með nýjum þjónusturýmum sem opna sig út á götu og glæða götuna lífi,“ segir í tillögu Nordic arkitekta.

Á þessari mynd er svæðið þar sem nú er bílastæði gegnt Borgarbíó. Hvíta og rauða húsið lengst til vinstri stendur við Brekkugötu. „Vestan við ný íbúðarhús verður til sameiginlegur garður sem mætir lóðum við Brekkugötu á áreynslulausan hátt,“ segir í plaggi arkitektanna.

Þar segir einnig að 3 til 4 hæða íbúðahús vestan megin við Túngötu brúi „bilið milli þess smágerða við Brekkugötu og þess stórgerða við Geislagötu og Glerárgötu. Fjölbreytt borgarrými myndast í formi garðs + vistgötu + torgs.“

Meðal breytinga á deiliskipulagi skv. nýrri tillögu arkitektanna er að húsið Hólabraut 13, gamla Zion þar sem RÚV er m.a. til húsi, verði fjarlægt.
_ _ _

Það eru Nordic arkitektar sem kynnu skipulagsráði þessar nýju hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu fyrir hönd BB Bygginga. Björn Ómar Sigurðsson, eigandi BB Bygginga, keypti á sínum tíma Borgarbíó og einnig Gránufélagsgötu 4, með sérstöku samkomulagi við eigendur JMJ.

Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net í apríl 2022 um fyrri tillöguna.

Smellið hér til að sjá allt um nýju hugmyndirnar.