Fara í efni
Skipulagsmál

„Kollugerðishagi“ fær heitið Móahverfi

Skipulagsráð Akureyrar hefur samþykkt að nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar fái heitið Móahverfi.

Á síðasta fundi ráðsins var lagt fram bréf nafnanefndar frá 11. júní 2021 þar sem lagt er til að hverfið, sem hefur haft vinnuheitið Kollugerðishagi, verði kennt við móa, lón eða flatir og að götur í hverfinu fái samsvarandi endingu.

Skipulagsráð samþykkti að götur í nýja hverfinu verði kenndar við móa og hverfið fái heitið Móahverfi. Einnig samþykkti ráðið að óska eftir tillögum nemenda í Síðuskóla að heitum gatna á svæðinu sem fái endinguna -mói.

Drög að deiliskipulagi svæðisins voru kynnt í október sl. þar sem markmiðið er að leggja grunn að hverfi með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi búsetukostur. Gert er ráð fyrir hátt í þúsund íbúðum í hverfinu.

Smelltu hér til að skoða vefsvæði Móahverfis, þar sem er að finna allar helstu upplýsingar um fyrirhugaða uppbyggingu og skipulagsferlið. Vefsvæðið er uppfært eftir því sem málinu vindur fram.