Fara í efni
Skipulagsmál

Ítarleg kynning vegna Tónatraðar

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær skipulagslýsingu vegna breytinga á skipulagi svæðis við Spítalaveg og Tónatröð í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu. Þar er um að ræða lýsingu á skipulagsverkefninu, þar sem koma fram helstu áherslur bæjarstjórnar, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

Skipulagsráð bæjarins tók í byrjun nóvember fyrir tillögu Yrki arkitekta að uppbyggingu við Tónatröð og samþykkti að hefja vinnu við breytingu á skipulagi svæðisins. Nánar hér um það.

Í stuttu máli felur tillagan í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa þar sem aukið er við byggingarmagn og íbúðum fjölgað. Gert er ráð fyrir að breyta þurfi bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi skipulagi eru á svæðinu óbyggðar einbýlishúsalóðir en lagt hefur verið til að í staðinn verði byggð fjölbýlishús.

Hvað gerist næst?

Skipulagslýsingin er aðgengileg hér. Hægt er að koma á framfæri ábendingum til og með 12. janúar sem er ívið lengri frestur en almennt tíðkast vegna hátíðanna.

Kynningaráætlun

Ástæða er til að vekja athygli á að í skipulagslýsingunni eru birtar upplýsingar um ítarlega kynningu og samráði við íbúa sem búið er að ákveða og verður að megninu til skipt í þrjár lotur:

1. Desember2021 / janúar 2022– skipulagslýsing

Markmiðið í þessari fyrstu lotu er að vekja athygli og áhuga fólks á þeim skipulagsbreytingum sem stefnt er að, útskýra og hjálpa fólki að koma sínum sjónarmiðum á framfæri snemma í ferlinu.

a) Lýsing þessi verður kynnt með ítarlegri og um leið aðgengilegri frétt á heimasíðu Akureyrarbæjar.

b) Útbúið hefur verið nýtt vefsvæði á heimasíðu sveitarfélagsins með öllum helstu upplýsingum sem ætlunin er að halda lifandi í gegnum allt skipulagsferlið. Sjá hér

c) Lýsingin verður auglýst í prentmiðli sem fer á öll heimili bæjarins sem og með keyptum auglýsingum á samfélagsmiðlum.

d) Fólki gefst kostur á að koma á framfæri ábendingum um skipulagslýsinguna á einfaldan hátt í gegnum ábendingaform á heimasíðunni.

2. Febrúar / mars 2022 – drög að skipulagsbreytingu

Þegar fyrir liggur tillaga að breytingu að aðalskipulagi og drög að breytingu á deiliskipulagi hefst næsta lota í kynningu, sem er jafnframt sú umfangsmesta.

a) Áhersla verður á að kynna tillöguna með fjölbreyttum hætti með auglýsingum í prentmiðlum og á samfélagsmiðlum.

b) Birt verður aðgengileg og myndræn frétt á heimasíðu bæjarins og vefsvæðið uppfært.

c) Ábendingaformið á vefnum verður tekið í notkun að nýju þannig að íbúar geti með sem einföldustum hætti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

d) Göngutúr með fræðslu. Íbúum og öðrum áhugasömum verður boðið í göngutúr um svæðið þar sem sagt verður frá breytingartillögum og hugmyndum að uppbyggingu „á vettvangi“. Þátttakendum gefst færi á að spyrja spurninga, auk þess sem starfsfólk bæjarins tekur niður ábendingar sem fram koma.

e) Kynningarfundur. Íbúum og öðrum áhugasömum verður boðið til kynningarfundar þar sem fjallað verður um skipulagsbreytinguna í máli og myndum. Gestum fundarins gefst færi á að spyrja spurninga, auk þess sem starfsfólk bæjarins tekur niður ábendingar sem fram koma.

3. Apríl / maí 2022

Skipulagsbreyting auglýst. Þegar bæjarstjórn hefur samþykkt að auglýsa aðal- og deiliskipulagsbreytinguna hefst þriðji fasi kynningar.

a) Birt verður aðgengileg og myndræn frétt á heimasíðu bæjarins um ákvörðun bæjarstjórnar og vefsvæðið uppfært.

b) Skipulagsbreytingin verður svo auglýst í prentmiðlum, annars vegar svæðismiðli og hins vegar landsdekkandi miðli.

c) Kynningargögn verða sett upp á áberandi stað í verslunarmiðstöð í bænum. Vakinverður sérstök áhersla á möguleikum fólks til að gera athugasemdir. Stefnt er að viðveru starfsfólks á skilgreindum tímum sem svara spurningum og hjálpa fólki að gera athugasemdir.

Smelltu hér til að senda inn ábendingu. Einnig er hægt að koma á framfæri ábendingum með tölvupósti á skipulagssvid@akureyri.is eða með bréfpósti í Ráðhús Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 600 Akureyri, merkt Skipulagssviði.