Fara í efni
Skipulagsmál

Íbúakosning hafin um skipulag Oddeyrar

Þetta er sú tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem var auglýst formlega 6. janúar 2021 í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar. Breytingin felur í sér að hæð einstakra byggingar geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli eða 6-8 hæðir. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum í fjölbýlishúsum og atvinnustarfsemi á neðstu hæð í hluta húsanna.

Ráðgefandi íbúakosning um breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar hófst í dag, 27. maí, og stendur til og með næsta mánudegi, 31. maí.

Allir íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu, 18 ára og eldri, geta tekið þátt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Til að komast þar inn þarf Íslykil eða rafræn skilríki. Þegar komið er inn í þjónustugáttina á að velja Kannanir úr stikunni, smella síðan Oddeyri – ráðgefandi íbúakosning og þá birtast möguleikarnir sem hægt er að velja á milli.

Smelltu hér til að fara í þjónustagáttina

Opnað hefur verið sérstakt svæði á vef bæjarins með öllum helstu upplýsingum – smellið hér til að fara þangað. 

Þrír möguleikar

Valið er á milli þriggja kosta sem fela í sér mismunandi hámarkshæð bygginga á svæðinu, en auk þess er hægt að taka þátt án þess að taka afstöðu með því að merkja við fjórða kostinn. Hver og einn íbúi hefur eitt atkvæði.

Kostirnir þrír eru þessir:

  • Gildandi aðalskipulag, 3 til 4 hæðir.
  • Tillaga þar sem hús geta verið 5 til 6 hæðir, 22 metra yfir sjávarmáli að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.
  • Auglýst tillaga þar sem hús geta verið 6 til 8 hæðir, 25 metrar yfir sjávarmáli að hámarki

Tekið er fram á heimasíðu Akureyrarbæjar að kosningingin sé ráðgefandi en ekki bindandi „og er fyrst og fremst verið að kanna hug og vilja fólks gagnvart uppbyggingu á svæðinu. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt svo að könnunin endurspegli sem best viðhorf íbúa.“

Að neðan eru myndir af tillögunum þremur, en tekið er fram á vef Akureyrarbæjar. Þar segir:  Athugið að þessar myndir eru ekki af væntanlegu útliti húsa, heldur einungis módel til að sýna mögulegt byggingarmagn. Hvort sem ákveðið verður að breyta aðalskipulagi eða ekki þá á eftir að vinna deiliskipulag og hanna húsin.

Möguleiki 1 – gildandi aðalskipulag, 3 til 4 hæðir

Möguleiki 2 – 5 til 6 hæðir, 22 metra yfir sjávarmáli að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.

Möguleiki 3 – Auglýst tillaga þar sem hús geta verið 6 til 8 hæðir, 25 metrar yfir sjávarmáli að hámarki.