Fara í efni
Skipulagsmál

Hvern langar að byggja á lóðinni Hlíðarbraut 4?

Loftmynd af lóðinni Hlíðarbraut 4 og nágrenni - úr auglýsingu á vef Akureyrarbæjar.

Akureyrarbær hefur auglýst eftir kauptilboðum í byggingarrétt lóðarinnar að Hlíðarbraut 4, norðan Orkunnar og AK-Inn á horni Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar.

Lóðin er 6.415 fermetra verslunar- og þjónustulóð samkvæmt skipulagi og má byggja á henni atvinnuhúsnæði í 4-5 hæða byggingum auk bílakjallara að því er fram kemur í auglýsingu á vef Akureyrarbæjar. Tilboðsfrestur í byggingarréttinn rennur út á hádegi fimmtudaginn 11. janúar 2024. 

Akureyri.net greindi frá því fyrir skemmstu að skipulagsráð hafi í lok nóvember hafnað umsókn Orkunnar um stækkun lóðarinnar við hlíð umræddrar lóðar til norðurs um 25 metra. Áform Orkunnar með umsókninni voru að byggja bílaþvottastöð og vetnisstöð til áfyllingar fyrir vetnisbíla. Fyrirhuguð vetnisstöð átti að vera hluti af áætlunum Orkunnar að byggja upp innviði í tengslum við orkuskipti á Íslandi. Erindi Orkunnar var hafnað á þeim forsendum að á þessu svæði sé samkvæmt deiliskipulagi lóð fyrir verslun og þjónustu með umtalsverðu byggingarmagni og að hún yrði auglýst á næstunni, sem nú er orðið að veruleika.