Skipulagsmál
Hvað viltu að verði gert á Allareitnum?
26.06.2023 kl. 12:07
Akureyrarbær keypti Allann – gamla Alþýðuhúsið við Gránufélagsgötu – fyrr á þessu ári eins og Akureyri.net greindi frá á sínum tíma. Húsið verður rifið fljótlega og í morgun birti Þórhallur Jónsson, varaformaður skipulagsráðs bæjarins, meðfylgjandi mynd á Facebook síðu sinni. Myndina bjó Þórhallur til í því skyni að varpa fram einhverri hugmynd og fá viðbrögð bæjarbúa. Hann veltir því fyrir sér hvernig byggingu fólk sjái fyrir sér á Allareitnum. Bæjarbúar hafa mikinn áhuga á skipulagsmálum miðað við lestur frétta Akureyri.net um þann málaflokk og ekki er að efa að margir hafa skoðun á því hvernig best er að nýta umræddan reit.