Fara í efni
Skipulagsmál

Hlíðarbraut 4: Heimila íbúðir á efri hæðum

Umrædd lóð er grassvæðið neðan við hús Ak-inn og Orkunnar. Hér horft frá Húsasmiðjunni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Gert er ráð fyrir að leyfa íbúðir á efri hæðum bygginga á lóð nr. 4 við Hlíðarbraut samkvæmt skipulagslýsingu vegna breytinga á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030

Lóðin er austan gatnamóta Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar, neðan við húsnæði Ak-inn og Orkunnar. Akureyrarbær hefur tvívegis auglýst eftir kauptilboðum í byggingarrétt lóðarinnar, án þess að hún hafi gengið út. Áður hafði umsókn Orkunnar um stækkun lóðarinnar við hlið umræddrar lóðar, þar sem Orkan áformaði að byggja bílaþvottastöð og vetnisstöð til áfyllingar fyrir vetnisbíla, verið hafnað af skipulagsnefnd Akureyrarbæjar. 

Samkvæmt núgildandi skipulagi er heimilt að byggja atvinnu- og þjónustuhúsnæði á tveimur til fimm hæðum, auk bílakjallara á lóðinni. Breytingin sem nú er fyrirhuguð og hefur verið auglýst felst í því að á efri hæðum bygginganna verði heimilt að byggja íbúðarhúsnæði. Lóðin sem um ræðir er 6.415 fermetrar að stærð.

Gangi skipulagsferlið snurðulaust fyrir sig má gera ráð fyrir að breytingin taki gildi í lok árs eftir lögformlegt kynningarferli.

Gulu strikalínurnar sýna lóðina Hlíðarbraut 4. Breyting sem nú er í bígerð á aðalskipulagi felur í sér að heimila íbúðabyggingar á efri hæðum 4-5 hæða þjónustu- og verslunarhúsnæðis. Skjáskot úr skipulagslýsingu.

Horft yfir lóðina sem um ræðir af planinu við Orkuna yfir að Húsasmiðjunni og Bílasölu Akureyrar. Mynd: Skapti Hallgrímsson