Fara í efni
Skipulagsmál

Háhýsi við Tónatröð

Flestir þekkja umræðuna um háhýsi við Tónatröð og aðkomu formanns Skipulagsráðs að þeirri hugmynd. Hann hefur ekki svarað málefnalegum fyrirspurnum sem birtust á fésbókarsíðu hóps um Spítalabrekkuna sem auðvitað er ekki til sóma þegar kemur að stjórnmálamönnum, í opinberum verkefnum fyrir Akureyri. En látum það nú vera, fæstir bjuggust við því í raun og veru að hann svaraði.

Nú hefur Skipulagsráð haldið sinn síðasta fund á kjörtímabilinu og á þeim fundi var lögð fram breyting á hugmyndum um uppbyggingu. Minjastofnum hafði hafnað hugmyndum um niðrrif Sóttvarnahúss sem byggt var 1905 og friðað.. Flestir reiknuðu með að það yrði síðasti naglinn í þessa fráleitu hugmynd, en aldeilis ekki. Nýjasta tillagan er að húsið stendur, en byggt í brekkunni að öðru leiti. Tvær sögufrægar byggingar í eigum SAK eru horfnar, þær á greinilega að rífa samkvæmt hugmyndum verktakans.

Nú er málinu frestað þarna og vísað á nýtt Skipulagsráð eftir kosningar sem verða næstkomandi laugardag.

Bókun Skipulagsráðs

Lögð fram drög Yrkis arkitekta ehf. að breytingu á deiliskipulagi Spítalavegar þar sem gert er ráð fyrir fjórum fjölbýlishúsum vestan megin við Tónatröð á svæðin þar sem nú eru lóðir 2, 4, 6, 10, 12 og 14. Er útfærsla deiliskipulagsins miðuð við að litlar sem engar breytingar verði á lóð Tónatraðar nr. 8 þar sem Minjastofnun heimilar ekki að hús á þeirri lóð verði fjarlægt.

Skipulagsráð samþykkir að fresta ákvörðun um framhald málsins þar til nýtt skipulagsráð hefur tekið við að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Nú eru kjósendur í dauðafæri að kjósa flokkana burtu sem standa að þessari breytingu í mikilli andstöðu við meirihluta bæjarbúa og hafa keyrt málið áfram með minnsta meirihluta og afar ólýðræðislega.

Óeðlileg stjórnsýsla við lóðaúthlutun, virðingaleysi við íbúalýðræði og ásýnd bæjarins á ekki upp á pallborðið hjá meirihluta bæjarbúa. Þessu er hægt að breyta næstkomandi laugardag.

Það skiptir máli hverjir ráða.

Jón Ingi Cæsarsson er áhugamaður varðveislu menningarminja og ásýnd Akureyrar