Fara í efni
Skipulagsmál

Hafnarstræti 16 og Leiruvöllur – já eða nei

Formlega verður samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag að ráðast í endurbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk í Hafnarstræti 16. Hópur íbúa í Innbænum hefur verið afar ósáttur við þær hugmyndir vegna þess að leikvöllur sunnan við húsið, gegnt Laxdalshúsi, minnki vegna framkvæmdanna. Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði og eiganda ráðgjafafyrirtækisins Envalys, hefur gert tvær kannanir þar sem fram kemur nokkur óánægja með ákvörðun bæjaryfirvalda. Nánar um það hér að neðan. Formaður skipulagsráðs segir hins vegar í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun að leikvöllurinn muni stækka.

Stærra og betra hús

„Húsið hefur staðið autt í nokkur ár vegna þess að það uppfyllir ekki nútímakröfur um aðbúnað. Því verður nú breytt og endurbygging mun skila stærra og betra húsi sem henta notendum. Eina leiðin til þess gera slíkar breytingar er að stækka húsið til suðurs inn á grænt svæði, sem stendur við leikvöllinn í Innbænum,“ skrifar Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsnefndar Akureyrar, í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun.

Halla segir ennfremur: „Það er ljóst að með þessari breytingu verður ekki lengur til staðar hóll sem börn hafa stundum nýtt til t.d. að renna sér á snjóþotu en þess í stað verður gerður nýr hóll á öðrum stað. Leikvöllurinn verður stækkaður í austurátt og gerður skemmtilegri en hann er núna með því að girða leiksvæðið af og leiktækjum og gróðri verður bætt við þannig að hann verði bæði hlýlegri og meira aðlaðandi. Hægt er að sjá þá breytingu með því að horfa á gulu línurnar á myndinni hér að neðan.“

Smellið hér til að lesa greinina.

Minningar og tilfinningaleg tengsl

Íbúar í Innbænum eru almennt andvígir framlögðum skipulagsbreytingum á svæðinu sem um ræðir en aðrir íbúar á Akureyri eru fremur hlynntir þeim. Þetta var niðurstaða könnunar sem fyrirtækið Envalys gerði fyrr á árinu og Akureyri.net greindi frá – sjá hér.

Könnunni var fylgt eftir með annarri þar sem einblínt var á minningar og tilfinningaleg tengsl fólks við Leiruvöllinn.

„Í haust var ég næsta viss um að það sambærilegt verkefni hefur ekki verið framkvæmt á Íslandi og svona sería er því enn sjaldséðari. En verkefni sem þessi eru engu að siður mikilvæg, því þau varpa ljósi á hluti sem mjög lítið er einblínt á en skipta okkur gríðarlega miklu máli,“ segir Páll Jakob Líndal, sem gerði kannanirnar.

Smellið hér til að sjá niðurstöður beggja kannana.

Þátttakendur í seinni könnuninni voru 96. „Í svona eftirfylgnis-könnun verð ég að segja að þessi þáttakendafjöldi er mjög áhugaverður og sýnir áhuga fólks á málinu,“ segir Páll Jakob.

„Niðurstöður þessarar síðari könnunar sýna að staðarvensl fólks við Leiruvöll eru fremur sterk og sterkari en í fyrri könnun. Staðarvenslin segja okkur því að þeir aðilar sem taka þátt í þessari könnun hafa fremur sterk tilfinningaleg tengsl við svæðið og svæðið, ástand þess og tilvist þess, skiptir þá máli. Sömuleiðis styður þessi könnun við niðurstöður fyrri könnunar um að Leiruvöllurinn getur veitt tilfinningu um aukið frelsi og vellíðan, hvort sem fólk sækir hann heim eða bara veit af honum – og það er áhugavert og sýnir að það að hafa möguleika, t.d. að heimasækja tiltekið grænt svæði, skiptir okkur máli.“

Ekki nóg að rýna í Excel-skjöl

Í könnuninni má svo finna hugleiðingar fólks og tengingar við Leiruvöllinn. „Þarna inni eru fjölmargar frásagnir – stuttar og langar. Margar af þeim eru persónulegar og veita innsýn inn í af hverju fólki finnst mikilvægt að Leiruvöllurinn haldi stöðu sinni og honum sé ekki raskað. Auðvitað er ekki allir sammála um mikilvægi þessa græna svæðis og ég hvet fólk til að lesa þessar frásagnir, því þó fólk tengi ekki sjálft við Leiruvöllinn þá er næsta víst að allir eiga sinn Leiruvöll einhvers staðar. Það er svæði sem þeim þykir vænt um og vilja að sé meðhöndlað af virðingu. Niðurstöður sem þessar veita því mikilvæga innsýn inn í hugarheim okkar og þessar niðurstöður eiga bæjaryfirvöld að taka með í reikninginn, þau eiga að hlusta, þau eiga að taka samtalið við íbúa, þetta fólk sem þarna býr og aðra sem láta sig þennan leikvöll varða.“

Páll segir að ekki sé nóg að rýna nær einungis í Excel-skjöl, „því þó það sé mikilvægt þá erum við bara ekki komin á þann stað að geta sett hugsun, hegðun, tilfinningar og upplifun fólks inn í þessi Excel-skjöl. Þess vegna komast þessir þættir aldrei inn í Excel-skjölin og þá er þeim bara sleppt. En á sama tíma erum við að skipuleggja, hanna og móta umhverfi fyrir fólk. En við sleppum aðalbreytunni – fólkinu sjálfu. Við verðum að fara að breyta þessu og það verða allir að leggjast á eitt í þessum efnum. Við eigum ekki að sleppa aðalbreytunni, við eigum að hjálpast að við að átta okkur á henni.“

Hvað er best fyrir samfélagið?

„Í þessari könnun er verið að stíga skref í þá átt að magnsetja tilfinningarnar og sú magnsetning á sér grunn í vísindum. Andleg heilsa og líðan er ein mesta áskorun 21. aldar og kostnaður samfélaga vegna hrakandi geðheilsu er geigvænlegur, við erum sífellt að læra meira og meira um mikilvægri góðrar geðheilsu og ávinning þess fyrir samfélagið. Sveitarfélög eiga að horfa til þess hvað er best fyrir samfélagið og þess vegna eiga kjörnir fulltrúar að taka umræðu sem þessa, þeir eiga að mæta fólkinu, þeir eiga að vera viljugir til að taka inn nýja þætti, eins og þessi sálrænu áhrif umhverfis á fólk, í því skyni að búa til betra samfélag. Hérna er Akureyrarbær í upplögðu tækifæri til að doka aðeins við í sínum fyrirætlunum og bjóða með opnum hug íbúum og öðrum til samtals,“ segir Páll Jakob Líndal.