Fara í efni
Skipulagsmál

Hafist handa við Ölduhverfi á árinu

Allt klárt! Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, og Viðar Helgason, talsmaður Ölduhverfis, handsala samninginn í morgun. Byggðin á Hrafnagili í fjarska. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fulltrúar Eyjafjarðarsveitar og Ölduhverfis ehf. undirrituðu í morgun samning um uppbyggingu íbúðahverfis, Ölduhverfis, í landi Kropps í Eyjafjarðarsveit. Nýja hverfið mun verða hluti af þéttbýliskjarnanum við Hrafnagil þar sem er að finna alla helstu þjónustu sveitarfélagsins, s.s. leik- og grunnskóla, sundlaug, íþróttahús og skrifstofu Eyjafjarðarsveitar.

Uppbygging Ölduhverfis verður í einkaframkvæmd, það er að segja uppbygging og lagning innviða, s.s. gatna- og stígagerð og fráveitukerfi. Að uppbyggingu lokinni mun Eyjafjarðarsveit taka yfir og eignast opin svæði, lóðir, götur, gangstíga og aðra þá innviði sem tilheyra rekstri sveitarfélaga og annast viðhald þeirra til frambúðar.

Lágreist byggð

Í nýja hverfinu er gert ráð fyrir lágri byggð eins til tveggja hæða húsa, einbýlis-, par- og raðhúsua ásamt litlum sex til átta íbúða fjölbýlishúsa. Byggðin mun falla vel að landslaginu og landhalli á svæðinu verður nýttur til að allar íbúðir hverfisins njóti mikils útsýnis, að sögn forsvarsmanna verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Ölduhverfi hefjist síðari hluta þessa árs.

„Í fullbúnu Ölduhverfi verða um 200 íbúðir þar sem boðið verður upp á afar góða aðstöðu fyrir þá sem búa vilja í rólegu og fallegu umhverfi og njóta um leið góðrar aðstöðu til útivistar. Hverfið er að mestu umlukið skógi, en á undanförnum árum hefur verið staðið fyrir umfangsmikilli skógrækt á svæðinu á rúmlega 100 hektara svæði,“ segir í tilkynningu frá Ölduhverfi.

Byggð í skóli skóga

„Ölduhverfi er byggð í skjóli skóga. Stórt opið svæði er í miðju hverfinu sem einnig tengist fjölbreyttum skógarstígum, vinsælum hjóla- og göngustíg milli Akureyrar og Hrafnagils. Svæðið bíður því upp á fjölbreytta möguleika til útivistar allt árið um kring,“ segir í tilkynningu.

Akureyri.net fjallaði um fyrirhugaða byggð í september á síðasta ári. Smellið hér til að lesa hana.

Að lokinni undirskrift í morgun. Frá vinstri: Páll Snorrason, Hörður Snorrason, Helga Hallgrímsdóttir, eiginkona Harðar; þau hjón eiga jörðina Kropp, Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri, og Viðar Helgason, talsmaður verkefnisins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Í STUTTU MÁLI ... 

  • Ölduhverfi mun rísa á um 10 hekturum í landi Kropps í Eyjafjarðarsveit og verður hluti af þéttbýlinu við Hrafnagil þar sem er margvísleg þjónusta, s.s. leikskóli, grunnskóli, sundlaug og íþróttahús.
  • Að austanverðu afmarkast hverfið af Eyjafjarðarbraut vestri, Jólagarðinum og Grísará til suðurs, jaðri skógræktar til vesturs og lækjarfarvegi að norðanverðu.
  • Skipulag Ölduhverfis gerir ráð fyrir um 200 íbúðum þegar hverfið verður fullbyggt.
  • Í hverfinu verður lágreist byggð, eins- og tveggja hæða hús, einbýli, rað- og parhús auk lítilla fjölbýlishúsa með sex til átta íbúðum.
  • Sjálfbærar og umhverfisvænar lausnir verða nýttar við uppbyggingu innviða Ölduhverfis.
  • Landhallinn verður nýttur til að allar íbúðir hverfisins munu veita gott útsýni.
  • Uppbygging Ölduhverfis verður einkaframkvæmd. Einkaaðili mun bera alla ábyrgð á framkvæmdum og fjármagna innviði hverfisins.
  • Verkið er unnið í náinni samvinnu við Eyjafjarðarsveit sem að uppbyggingu lokinni mun eignast opin svæði, lóðir, götur og gangstíga hverfisins og annast viðhald þeirra og rekstur.
  • Ölduhverfi tengist fjölbreyttum skógarstígum, vinsælum hjóla- og göngustíg milli Akureyrar og Hrafnagils. Svæðið bíður því upp á fjölbreytta möguleika til útivistar allt árið um kring.
  • Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Ölduhverfi hefjist seinni hluta ársins 2022.

Skipulag Ölduhverfis í landi Kropps. Blái flöturinn er bærinn að Kroppi, rauði hringurinn er dreginn utan um Jólagarðinn sem margir kannast við.

Að neðan: Rauður hringur um allt svæðið þar sem Ölduhverfi rís. Hinir bláu fletirnir er núverandi byggð.