Fara í efni
Skipulagsmál

Fyrsta mark Bríetar Fjólu í Bestu deildinni

Bríet Fjóla Bjarnadóttir glöð í bragði eftir sigurinn á Víkingi í Reykjavík í kvöld. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoraði í fyrsta skipti í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, þegar Þór/KA vann Víking 4:1 í Reykjavík. Þessi stórefnilegi framherji hafði komið við sögu í 15 leikjum í Bestu deildinni en var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í dag.

Rúmur hálftími var liðinn þegar Bríet Fjóla kom Þór/KA í 1:0. Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann á hægri kantinum, lék upp að endamörkum og sendi fyrir markið – boltinn lenti ofan á þverslánni og datt þaðan niður í markteiginn þar sem Bríet Fjóla tók hann á lofti og skoraði af öryggi.

Bríet Fjóla er fædd 5. janúar árið 2010 og er því aðeins 15 ára og 101 dags gömul í dag, þegar hún brýtur ísinn.

FYRSTI LEIKURINN

Bríet Fjóla í leiknum gegn Breiðabliki 13. september 2023, þá 13 ára og 251 daga gömul. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Bríet Fjóla kom í fyrsta skipti við sögu hjá Þór/KA í Bestu deildinni þegar hún kom inn á sem varamaður undir lok sigurleiks (3:2) gegn Breiðabliki 13. september 2023. Hún var þá aðeins 13 ára gömul og 251 daga gömul, langyngst allra leikmanna deildarinnar það sumar. Bríet Fjóla var enn leikmaður 4. flokks KA en hafði einnig leikið með 3. flokki Þórs/KA og 2. flokki Þórs/KA/Völsungs.

Deildarleikurinn gegn Breiðabliki var einnig minningarleikur um föðurafa Bríetar Fjólu, Guðmund Sigurbjörnsson eins og Akureyri.net fjallaði um hér:

Fallegur dagur Bríetar Fjólu og fjölskyldu