Fara í efni
Skipulagsmál

Fyrsta blokkin rís – 28 lóðir auglýstar aftur

Fyrsta blokkin er risin í Móahverfinu. Mynd: Akureyri.is.
Móahverfið, nýjasta stækkun Akureyrar ofan og suðvestan við Síðuhverfið, tekur smátt og smátt á sig mynd. Fyrr í mánuðinum reis fyrsta blokkin og stutt er í að fyrstu raðhúsin fari að taka á sig mynd. Blokkin sem er að rísa er í Lautarmóa 1. Samtals verða 50 íbúðir með sameiginlegum bílakjallara í Lautarmóa 1, 3 og 5 og er áætlað að íbúðirnar verði afhentar á árinu 2026. Áætluð afhending er 2026. Lautarmói er ofan við blokkirnar í Vestursíðunni, bananablokkirnar eins og þær eru stundum kallaðar, handan Borgarbrautarinnar.
 
Móahverfið er ekki komið á það stig að fólk sé byrjað að flytja inn í íbúðir og segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi erfitt að segja hvenær það verði. Hugsanlega verði flutt inn í par- eða raðhús seinnipart sumars á komandi ári, en ekki líklegt að fjölbýlishúsin verði tekin í notkunn fyrr en á árinu 2026.
 
Framkvæmdir hafnar við 172 íbúðir
 

Samkvæmt nýjustu tölum frá skipulagssviði Akureyrarbæjar eru framkvæmdir hafnar við 172 íbúðir í Móahverfinu. Langflestar þeirra eru í fjölbýlishúsum, 161 íbúð. Einnig eru framkvæmdir hafnar við níu íbúðir í raðhúsum og tvær í parhúsi.

Hátt í 150 lóðum hefur að auki verið úthlutað, en ekki komnar á það stig að búið sé að veita byggingarleyfi. Þar er um að ræða rúmlega 90 íbúðir í fjölbýlishúsum, 36 íbúðir í raðhúsum, 14 íbúðir í parhúsum og þrjú einbýlishús. Í auglýsingu eru að auki lóðir fyrir 12 íbúðir í raðhúsum og 25 einbýlishús. Að síðustu eru svo lóðir fyrir fjölbýlishús fyrir á bilinu 116-145 íbúðir, sem ekki hafa verið auglýstar og þar með ekki úthlutað heldur.


Teikning af Móahverfinu. Rauði kassinn sýnir Lautarmóa 1, 3 og 5. Lóðir í 2. áfanga sem nú hafa verið augýstar eru lengst til vinstri á þessari mynd.
Nú hefur skipulagssvið Akureyrarbæjar auglýst aftur eftir kauptilboðum í lóðir í 2. áfanga Móahverfisins. Þar er um að ræða 25 einbýlishúsalóðir og þrjár raðhúsalóðir. 
 
 

Deiliskipulag hverfisins gerir ráð fyrir 960-1.100 íbúðum og hefur lóðum fyrir rúmlega 300 íbúðir í fjölbýlis-, rað-, par- og einbýlishúsum verið úthlutað nú þegar. Fullbyggt ætti hverfið að hýsa um 2.400 manns að því er fram kemur á vef Akureyrarbæjar.


Lóðirnar í 2. áfanga Móahverfis sem nú hafa verið auglýstar aftur.