Fara í efni
Skipulagsmál

Fara fram á úrbætur fyrir rútubifreiðar

Lystigarðurinn og lóð Menntaskólans á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

SBA-Norðurleið og Samtök ferðaþjónustunnar hafa í sameiningu sent erindi til skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar þar sem farið er fram á úrbætur á nokkrum stöðum í bænum vegna umferðar hópferðabifreiða og nýtingu á fjölförnum ferðamannastöðum. Meðal þess sem um ræðir er aðstaða við aðalinngang Lystigarðsins, sleppisvæði við Glerárgötu og aðstaða við Hof, hvort tveggja vegna Strætó og í tengslum við hvalaskoðunarferðir. Bréfið var lagt fram til kynningar í skipulagsráði Akureyrarbæjar í vikunni og er aðgengilegt í fundagátt bæjarins - sjá hér.

Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar funduðu með skipulagsfulltrúa í nóvember og nú hafa Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar, og Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri SAF, sent erindi til bæjarins um akstur hópferðabifreiða um bæinn. Þar eru talin upp nokkur atriði sem óskað er eftir að verði tekin til athugunar hjá bænum og unnið að úrbótum fyrir komandi sumar til að tryggja eins og kostur er öryggi ferðamanna og bæjarbúa, eins og það er orðað í bréfinu. SBA-Norðurleið og Samtök ferðaþjónustunnar vilji gjarnan eiga gott samstarf við Akureyrarbæ varðandi þau atriði sem farið er yfir í bréfinu og taka þátt í áframhaldandi umræðum enda sé það stefna fyrirtækisins og samtakanna að akstur hópbifreiða og önnur ferðaþjónustustarfsemi falli vel að annarri starfsemi. 

Aðstaða fyrir bílstjóra og farþega Strætó í Strandgötu framan við Hof er óviðunandi að þeirra mati vegna slysahættu og því mikilvægt að finna heppilegri staðsetningu fyrir Strætó á Akureyri.

Þörf á úrbótum við Lystigarðinn

„Lystigarðurinn á Akureyri er trúlega bæjarins fjölsóttasti ferðamannastaður. Sem dæmi má nefna að á síðasta ári flutti SBA-Norðurleið um 50.000 farþega í Lystigarðinn og á annasömustu dögunum var farþegafjöldinn á bilinu 1.000-1.500 manns,“ segir meðal annars í bréfinu. 

Gert er ráð fyrir því í deiliskipulagi Menntaskólans á Akureyri að aðkoma inn í Lystigarðinn sé í gegnum lóð skólans og segir í texta skipulagsins að bæði vegna hótelsins, í heimavist MA og VMA, og þess fjölda sem sækir Lystigarðinn heim geti verið allt að tíu hópferðabílar á sama tíma á bílastæðunum. Þessir bílar leggi á eystra stæðinu sunnan aðkomuvegar og stæðið útfært með tilliti til þess að stórir langferðabílar geti athafnað sig þar. Í erindinu er hins vegar bent á að því miður sé staðan sú að á umræddu bílastæði séu engin merkt stæði fyrir hópferðabifreiðar og oftar en ekki erfitt fyrir bílstjóra á stórum bílum að athafna sig þar með öruggum hætti.

„Hafa ber í huga að með auknum fjölda ferðamanna og lengdu ferðamannatímabili hefur notkunin á þessu stæði aukist mikið og á sama tíma virðist einkabílanotkun menntaskólanema einnig hafa aukist töluvert. Þetta hefur leitt af sér meiri skörun á ferðamannatímabilinu og skólastarfi MA og því nauðsynlegt að skipulag á bílastæðum sé endurskoðað þannig að ekki skapist núningur á milli ólíkra hagsmunaaðila líkt og gerðist sl. haust,“ segir í bréfinu.

Vilja nýja leið inn á bílastæði MA við Lystigarðinn

Bent er á eftirtaldar úrbætur sem ráðast þurfi í til að gera aðstæður við Lystigarðinn viðunandi:

  • Núverandi inn- og útakstur á stæði MA við Þórunnarstræti er óviðunandi, nauðsynlegt er að víkka beygjusvæðið bæði til norðurs og suðurs, sjá rauðan hring á mynd 1.
  • Breytt aðkoma og umferð um bílastæði við Lystigarð/MA. Núverandi leið af Þórunnarstræti inn á stæðið hentar illa fyrir stóra bíla þar sem beygjan er allt of þröng. Æskilegt er að innakstur hópferðabíla væri úr suðri, sjá bláar og fljólubláar línur á mynd 1. Útakstur af bílastæði gæti verið óbreyttur, svört lína á mynd 1.
  • Afmarka þarf svæði fyrir hópferðabíla með merktum rútustæðum. Öruggast væri að hafa þetta svæði sem næst aðalinngangi Lystigarðsins til að tryggja sem best öryggi gangandi fólks.
  • Skipuleggja þarf rútustæði þannig að ekki þurfi að bakka þegar lagt í stæði eða ekið úr stæði.
  • Skortur á salernum í eða við Lystigarðinn er tilfinnanlegur og er býnt að úr því verði bætt.

Vilja sleppistæði í útskoti við Glerárgötu

Með fyrirhugaðri uppbyggingu á Torfunefssvæðinu og fleiri reitum í miðbænum skapast þörf á aukinni og betri aðstöðu fyrir hópferðabíla. Til að mynda eru skemmtiferðaskip bókuð við Torfunefsbryggjuna á komandi sumri og hefur SBA Norðurleið nú þegar fengið nokkrar beiðnir um þjónustu við farþega þeirra skipa. Bent er á að eins og aðstæður eru núna vanti örugg skammtímastæði fyrir 10-15 mínútna stopp, eða svokölluð sleppistæði, sem henta til að sækja og skila farþegum á Torfunefsbryggjuna. 



Slík stæði myndu þjóna mun fleiri aðilum og ráða bót á þeim vandræðum sem nú eru þegar hópferðabílar þjónusta fólk sem ætlar að verja hluta úr degi í miðbæ Akureyrar eða sækja viðburði í Hof. Tillaga SBA-Norðurleiðar er að gert verði útskot/sleppistæði við Glerárgötu sem myndi rúma tvær hópbifreiðar, sjá tvær hugmyndir á mynd 2. Grænu línurnar sýna mögulegar staðsetningar fyrir slíkt útskot og rauðu línurnar hlykki sem myndi þurfa að gera á núverandi gangstíg,“ segir í bréfinu um úrbætur við Glerárgötuna.

Þá er einnig bent á mikilvægi þess að gert sé ráð fyrir umferð hópbifreiða um Oddeyrarbót vegna aðkomu að Hofi og  hvalaskoðunarfyrirtækjum, þar sem SBA-Norðurleið annist töluverða fólksflutninga, hvort tveggja vegna viðburða í Hofi og hvalaskoðunarferða.