Fara í efni
Skipulagsmál

„Fallegasti reitur Akureyrar“

Hjónin Elín Lára Edvardsdóttir og Jens Sandholt taka fyrstu skóflustunguna í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Ég er fyrst og fremst hissa á að við séum að taka fyrstu skóflustungu í dag – á fallegasta reit Akureyrar, að mér finnst – aðeins átta mánuðum eftir að við skiluðum inn fyrstu tillögum,“ sagði Jens Sandholt, verktaki og fjárfestir, við Akureyri.net í gær. Jens og eiginkona hans, Elín Lára Edvardsdóttir, höfðu þá tekið fyrstu skóflustungu á reitnum við Austurbrú, milli Drottningarbrautar og Hafnarstrætis, þar sem Jens og hans fólk munu byggja nokkur hús, alls 65 íbúðir, á næstu þremur árum, og níu hótelíbúðir að auki.

Uppbyggingin mun setja mikinn svip á miðbæ Akureyrar. „Ég er ótrúlega glaður að við séum komin af stað og hve allir sem að hafa komið eru góðir í viðkynningu. Ég er mjög glaður í hjarta,“ sagði Jens í gær.

Ekki ein einasta athugasemd

Jens segir skipulagsferli geta verið þungt í vöfum og tekið langan tíma. „Svona stórt verkefni getur tekið eitt ár eða eitt og hálft; við erum bæði að skipuleggja húsin og allt nærumhverfið. Það þarf að kynna verkefnið fyrir pólitíkusum og skipulagsyfirvöldum og svo hafa nágrannarnir auðvitað sitt að segja. Það var mjög ánægjulegt að ekki einn einasti þeirra gerði athugasemd.“

Hann segist meta þau viðbrögð þannig að fólk sé algjörlega á sama máli og hann hvernig best verði staðið að málum á reitnum. „Við erum ekki Akureyringar en höfum miklar tilfinningar til bæjarins, mér finnst ég mjög heppinn að hafa fengið þennan reit og það er afar mikilvægt að fara í gegnum skipulagsferlið án þess að nokkur athugasemd berist. Það er í raun ótrúlegt, en mjög gott veganesti, sem ég er ofboðslega ánægður með það.“

Klæðskerasaumað fyrir staðarandann

Jens og Elín voru með þeim fyrstu sem keyptu íbúð í Austurbrú 2, fyrsta húsinu sem byggt var sunnan við Bautann fyrir nokkrum árum. „Okkur finnst þetta mjög fallegt svæði; kirkjustæðið, Sigurhæðir og öll hin gömlu húsin hér í kring. Þegar farið var að byggja við Austurbrú var ég spenntur en samt dálítið áhyggjufullur yfir því hvað yrði sett niður á svæðinu. Ég var glaður þegar kom í ljós að menn voru ekki að hugsa um 10 hæða turna eða eitthvað slíkt.“

Jens segist lengi hafa horft til lóðarinnar Hafnarstrætis 80 þar sem hann er nú að hefja framkvæmdir og gladdist mjög þegar hann fékk henni úthlutað, svo og Austurbrú 10-12 þar norðan við. „Ég vissi að ekki þýddi að koma með hugmyndir að verktakavænum byggingum, sem stundum eru kallaðar svo; kassa hátt upp í loftið. Umhverfið er svo fallegt að það er ekki hægt. Ég er á þeirri skoðun að sveitarfélög þurfi að hafa kjark til að gera kröfur um hvernig byggingar eigi að vera á svæði eins og þessu. Mér fannst frábært að vinna með skipulagsyfirvöldum hér vegna þess að þau voru sammála mér um að það sem við vildum gera væri klæðskerasaumað fyrir staðarandann.“

Jens skrifaði í gær undir samning við Finn ehf. um jarðvegsvinnu og þegar leyfi fæst verður hafist handa. Hann segir verkið taka um þrjú ár, ef til vill þrjú og hálft. Ekki verði um bútasaum að ræða heldur öll uppbygging kláruð áður en íbúðir verði seldar. Hann segist strax hafa fundið fyrir miklum áhuga og margir séu þegar komnir á lista; vilji fá að vita þegar íbúðir fara í sölu.

Á reitnum verða 65 íbúðir sem Jens hyggst selja, í húsunum Drottningarbrautarmegin, en meðfram Hafnarstrætinu verða níu hótelíbúðir sem hann mun leigja út.

Desember 2020: Hef lengi horft til þessarar lóðar 

Febrúar 2021:  Sjáðu tillögur að byggð við Austurbrú - MYNDBAND

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, blessaði verkefnið  eftir að  Elín Lára og Jens tóku fyrstu skóflustunguna. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson. 

Þetta svæði á milli Hafnarstrætis og Drottningarbrautar, norðan við gamla Samkomuhúsið, verður mikið breytt að þremur árum liðnum.   

Hjónin Elín Lára Edvardsdóttir og Jens Sandholt taka fyrstu skóflustunguna í gær.

Fyrirtæki Jens hefur keypt þetta hús, Hafnarstræti 82. Byggt verður við suðurenda þess, þann til vinstri á myndinni.