Fara í efni
Skipulagsmál

Engar umsóknir um lóðirnar Hofsbót 1 og 3

Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 eru á þessari mynd afmarkaðar nokkurn veginn með rauðu strikunum. Bygging BSO sést neðst í vinstra horni myndarinnar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Sagan langa um veru leigubílastöðvar BSO á horni Strandgötu og Glerárgötu gæti haldið áfram að lengjast. Akureyrarbær leitaði með auglýsingu í lok maí eftir kauptilboðum í byggingarrétt á lóðunum nr. 1 og 3 við Hofsbót og rann frestur til að senda inn tilboð út fimmtudaginn 27. júní. Engin umsókn barst.

Fram kom í bókun bæjarráðs Akureyrarbæjar í desember síðastliðnum að lóðirnar yrðu auglýstar á þessu ári og ef tilboð bærist í lóðina Hofsbót 1 sem bæjarráð samþykkti þyrfti BSO að fara með starfsemi sína og húsakost af svæðinu með sex mánaða fyrirvara. 


Yfirlitsmynd úr auglýsingu Akureyrarbæjar sem sýnir afmörkun umræddra lóða. 

Sagan af stöðuleyfi fyrir mannvirki leigubifreiðastöðvarinnar sem hófst með veitingu bráðabirgðaleyfis með sex mánaða uppsagnarfresti 1955 heldur því áfram að lengjast í annan endann, væntanlega um sex mánuði í senn. 


Hús leigubifreiðastöðvar BSO hefur staðið með bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá 1955. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.