Fara í efni
Skipulagsmál

„Ég hef lengi horft til þessarar lóðar“

Lóðirnar þar sem Jens Sandholt hyggur á framkvæmdir. Lengi vel hugðist KEA fjárfestingafélag reisa hótel á horninu, Hafnarstræti 80, en hætti við og skilaði lóðinni.

„Ég hef lengi horft til þessarar lóðar, sótti þess vegna um þegar hún var auglýst og er mjög ánægður með að hafa fengið hana,“ segir Jens Sandholt, eigandi fjárfestingafélagsins Luxor ehf við Akureyri.net, um lóðina Hafnarstræti 80. Luxor fékk lóðinni úthlutað í vikunni, sem og Austurbrú 10-12 þar norðan við.

Lóðin Hafnarstræti 80 er á mótum Hafnarstrætis og Austurbrúar, vestan Drottningarbrautar. KEA fjárfestingafélag hugðist reisa þar hótel en hætti við og skilaði lóðinni. Auk Luxor er byggingaverktakafyrirtækið J.E. Skjanni í eigu Jens Sandholt og það mun sjá um framkvæmdir á lóðunum.

„Við erum ekki búnir að mynda okkur nákvæma skoðun á því hvað við viljum gera en erum byrjaðir að móta hugmyndir, ég og arkitektinn, og verðum tilbúnir með kynningu fyrir Akureyrarbæ í lok janúar. Ég get þó sagt að okkur langar að byggja stórar íbúðir með góðum svölum og stórum gluggum, þannig að menn geti notið vel þessa fallega útsýnis,“ segir Jens.

Hann bætir við að markmiðið sé að á lóðinni rísi hús sem verði í anda nálægðar byggðar „og verði okkur til sóma.“

Jens hefur lengi verið í byggingabransanum á höfuðborgarsvæðinu. „Mér finnst miðbærinn á Akureyri mjög spennandi staður, á reyndar íbúð þar og við hjónin erum töluvert á Akureyri vegna þess að okkur finnst það svo góður og fallegur staður. Við vorum með þeim fyrstu sem keyptum íbúð í Austurbrú 2, fyrsta húsinu sem byggt var sunnan við Bautann,“ segir Jens Sandholt.