Fara í efni
Skipulagsmál

Dýralæknaþjónustan vill halda Súluvegi 3

Lóðirnar við Súluveg 3 og 5 eru á græna blettinum handan Miðhúsabrautarinnar á þessari mynd. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar hefur sent skipulagsráði Akureyrar erindi þar sem þess er óskað að fyrirtækið haldi lóðinni að Súluvegi 3 þar sem áform fyrirtækisins hafa verið að byggja sérhæfðan dýraspítala. Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar hefur sótt um lóðir 3 og 5 við Súluveg undir nýja Slökkvistöð.

Fram kemur í erindi Dýralæknaþjónustunnar að búið sé að teikna húsið og verktaki tilbúinn í verkið, aðeins eigi eftir að klára verkfræðiteikningar sem geti verið tilbúnar eftir 2-3 vikur og stefnt að því að hefja framkvæmdir með haustinu. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu og fól skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjendur sem og Slökkvilið Akureyrar.

Sóttu fyrst um 2017

Forsaga málsins er að Dýralæknaþjónustan hafði fengið lóðina samkvæmt ákvörðun skipulagsráðs 18. ágúst 2022, en lóðin fallið aftur til bæjarins þar sem framkvæmdir höfðu ekki hafist. Í erindi fyrirtækisins til skipulagsráðs kemur fram að sótt hafi verið um lóð til að byggja dýraspítala í mars 2017, en skipulag hafi dregist á langinn og verið samþykkt fimm árum síðar, 28. júlí 2022. Lóðinni var í framhaldinu úthlutað til Dýralæknaþjónustunnar. En lánaumhverfið var þá óhagstætt. 

„Þegar hér var komið var umhverfi varðandi lántöku gjörbreytt og vegna þessa höfum við haldið að okkur höndum og dregið að byrja á byggingu. Hins vegar fórum við á fullt með að láta teikna spítala og vera í sambandi við verktaka. Nú er staðan sú að búið er að teikna húsið og fá verktaka sem er til í að byrja sem fyrst. Eftir er að klára verkfræðiteikningar, en þær geta verið tilbúnar eftir 2-3 vikur. Stefnan er, ef við höldum lóðinni, að skila inn teikningum og byrja byggingu fyrir haustið,“ segir meðal annars í bréfi fyrirtækisins til skipulagsráðs.


Skipulagsuppdráttur sem sýnir lóðirnar nr. 3 og 5 við Súluveg. Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar fékk úthlutað lóð nr. 3 samkvæmt ákvörðun skipulagsráðs í ágúst 2022, en Akureyrarbær tók hana til baka þar sem upphaf framkvæmda dróst á langinn. Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar sótti nýlega um báðar lóðirnar, 3 og 5, undir nýja slökkvistöð. 

En það eru fleiri sem vilja lóðina, eins og áður sagði. Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar hefur sótt um lóðir nr. 3 og 5 undir nýja slökkvistöð. Skipulagsráð tók jákvætt í það erindi í byrjun júlí og fól skipulagsfulltrúa að ræða við Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar um málið, eins og fjallað var um í frétt Akureyri.net í lok júlí.

Nálægð við íbúðabyggð og hesthúsahverfi

Í bréfi Dýralæknaþjónustunnar til skipulagsráðs er farið yfir starfsemi fyrirtækisins og sögu, þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þjónustunnar og að hún sé á einum stað. Fyrirtækið hefur til langs tíma verið rekið á tveimur stöðum í bænum, í Kaupangi og Perlugötu. Fyrirtækið hefur starfað á Akureyri í 26 ár. Eins og er starfa sjö dýralæknar hjá fyrirtækinu, með sérmenntun varðandi gæludýr, hesta og búfénað, ásamt öðrum starfsmönnum með sérmenntun varðandi dýr. 

„Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar er stærsta dýralæknaþjónusta á Norður- og Norðausturlandi, þjónustusvæði okkar er fyrst og fremst Akureyri, Eyjafjörður og Þingeyjarsveit, en jafnframt fáum við talsvert af gæludýrum og hestum af Norðaustur- og Austurlandi þar sem við búum yfir sérþekkingu og tækjabúnaði sem minni stofur búa ekki yfir,“ segir meðal annars í bréfinu. Þjónusta fyrirtækisins hefur breyst töluvert undanfarinn áratug, meðal annars með aukinni gæludýraeign. „Gæludýra- og hestaeigendur vilja fá góða og faglega þjónustu fyrir dýrin sín og viljum við geta boðið þessa þjónustu í húsnæði sem uppfyllir nútíma kröfur. Við teljum að lóðin við Súluveg henti vel fyrir dýraspítala vegna nálægðar við íbúabyggð sem og nálægðar við hesthúsahverfið. Með byggingu sérhæfðs dýraspítala höfum við möguleika á að auka enn frekar okkar sérfræðiþjónustu og gera um leið vinnustað sem er aðlaðandi fyrir dýralækna og sérmenntað starfsfólk sem tengist þessari grein. Þannig má efla enn frekar þjónustu við íbúa á Akureyri og í nærsveitum.“

Eigendur Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar eru Aðalbjörg Jónsdóttir, Helga Berglind Ragnarsdóttir og Helga Gunnarsdóttir.