Fara í efni
Skipulagsmál

Drög að deiliskipulagi kynnt á opnu húsi í dag

Akureyrarbær vinnur að gerð deiliskipulags fyrir Tryggvabraut og atvinnusvæði norðan hennar í samvinnu við Vegagerðina. Drög að deiliskipulagi liggja nú fyrir og verða þau kynnt á opnu húsi í Ráðhúsi Akureyrarbæjar í dag, þriðjudag 14. júní, frá klukkan 16.30 til 19.00.

Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu og er markmið skipulagsvinnunnar að útfæra samræmt og heildstætt skipulag fyrir svæðið.

„Megináhersla er lögð á endurbætur Tryggvabrautar, aukið umferðaröryggi og bættar tengingar gangandi og hjólandi vegfarenda ásamt því að skilgreina byggingarheimildir á atvinnulóðum milli Tryggvabrautar og Glerár,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Deiliskipulagsdrögin má einnig nálgast hér og greinargerð með tillögunni hér . Þá má ennfremur skoða forsendur fyrir vega- og stígahönnun á svæðinu hér og hér.

Á vef bæjarins eru íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sér skipulagið og koma ábendingum á framfæri. Skriflegar ábendingar má leggja fram á opnu húsi eða senda bréfleiðis til þjónustu- og skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9 eða á netfangið skipulag@akureyri.is.

Frestur til að koma á framfæri ábendingum við tillöguna er til 15. ágúst 2022.