Fara í efni
Skipulagsmál

Byggja 35 íbúðarhús í landi Ytri-Varðgjár

Séð yfir í Vaðlaheiði frá Akureyri. Byggingarsvæðið þar sem ætlunin er að reisa 35 íbúðarhús er lauslega afmarkað með rauðu á myninni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Landeigendur Ytri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit hyggjast byggja 35 íbúðarhús á svæði sem er um 18,5 hektarar að stærð. Aðkoma að hverfinu er frá Veigastaðavegi. Endanleg tillaga að deiliskipulagi liggur nú fyrir hjá Eyjafjarðarsveit og var hún send skipulagsráði Akureyrarbæjar til umsagnar í júní. Skipulagsráð Akureyrarbæjar gerir ekki athugasemdir við tillöguna.


Loftmynd sem sýnir legu svæðisins, meðal annars nálægðina við Skógarböðin. Skjáskot af map.is.

Akureyri.net hefur áður sagt frá þessum áformum í frétt í október í fyrra þegar unnið var að skipulagslýsingu. Svæðið sem um ræðir afmarkast af Veigastaðavegi í vestri og nær þaðan um 300 metra upp í Vaðlaheiði til austurs og liggur að landamörkum við Austurhlíð í norðri og við Syðri-Varðgjá í suðri. Gert er ráð fyrir íbúðarhús og nokkur útihús á bæjartorfu Ytri-Varðgjár víki af svæðinu við skipulag íbúðabyggðarinnar og hefur sveitarfélagið þegar veitt heimild til niðurrifs húsanna.

Götunöfnin í hinu nýja hverfi fá nöfn sem enda á -gjá; Hlíðargjá, Hjallagjá, Hólagjá, Holtagjá, Hagagjá og Háagjá. Uppbyggingu á svæðinu verður skipt í þrjá áfanga og miðað við að hámarki 15 íbúðarlóðir í hverjum áfanga. 

  • Fyrsti áfangi (rautt)
    Hlíðargjá 1,2, 3, 4, 6, 8, 10 og 12
    Hólagjá 1, 2 og 3
    Hagagjá 1 og 3
    Holtagjá 2
  • Annar áfangi (svart)
    Hagagjá 2, 4, 5, 6 og 7
    Háagjá 1, 2, 3, 4 og 5
    Holtagjá 1 og 3
  • Þriðji áfangi (blátt)
    Hjallagjá 1, 2, 3, 4, 5 og 6
    Hlíðargjá 5, 7 og 9