Fara í efni
Skipulagsmál

Bíða spennt eftir fundi skipulagsráðs

Fyrsta skóflustunga að hinu nýja Holtahverfi var tekin í byrjun þessa árs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ásdís Árnadóttir á Akureyri hefur síðustu misseri unnið ötullega að því að gera mögulega byggingu blokkar þar sem eldri borgarar geti keypt íbúðir á viðráðanlegu verði. Húsnæðismál hafa verið Ásdísi hjartans mál lengi en sjálf er hún á níræðisaldri.

Á morgun, miðvikudag, tekur skipulagsráð Akureyrar fyrir erindi um breytingu á skipulagi vegna fjölbýlishúss við Hulduholt 2 í hinu nýja Holtahverfi norðan Glerár, og Ásdís bíður spennt eftir niðurstöðunni. Hún segir að á undanförnum mánuðum hafi mikil vinna farið í að finna lóð undir fjölbýlishús með íbúðum fyrir hóp af íbúum bæjarins „sem hefur náð 60 ára aldri og greitt sín gjöld til bæjarins í áratugi,“ eins og hún orðar það.

„Lóðin að Hulduholti 2 hentar hópum mjög vel, ekki síst vegna staðsetningar hennar. Viðræður við lóðarhafa ganga vel, núverandi skipulag hússins hentar hópnum þó engan veginn, en þær breytingar sem þarf að gera koma ekki til með að hafa nein áhrif á umhverfið en hafa úrslitaáhrif á hvort húsið hentar fyrir hópinn eða ekki,“ segir Ádsís.

Um er að ræða þriggja hæða blokk. Í upphaflegu skipulagi hennar er gert ráð fyrir að fyrst sé farið inn á gang og þaðan inn í íbúðirnar auk þess sem þriðja hæðin er inndregin. „Við viljum breyta í svalainngang og að þriðja hæðin verði ekki inndregin heldur allar hæðir eins,“ segir Ásdís.

„Þeir sem hafa skráð sig fyrir íbúðum í húsinu bíða því með krosslagða fingur í þeirri von að skipulagsráð bæjarins horfi jákvæðum augum á þetta þarfaverk.“