Fara í efni
Skipulagsmál

Allar 25 lóðirnar í nýju hverfi þegar seldar

Nýbúnir að kaupa jörðina; Pétur Karlsson og Hjörleifur Árnason ásamt hundinum Nagla.

Færri fengu lóð en vildu í Kotru, nýju íbúðasvæði í Vaðlaheiði gegnt Akureyri, þar sem Hjörleifur Árnason og Pétur Karlsson hafa látið skipuleggja 25 einbýlishúsalóðir. Allar eru seldar og strax varð til biðlisti.

Kotra var keypt út úr landi Syðri-Varðgjár í Eyjafjarðarsveit. Svæðið afmarkast af landamerkjum Syðri-Varðgjár í norðri og landamerkjum Eyrarlands í suðri.

Félagið Stallur ehf. í eigu Hjörleifs og Péturs er eigandi Kotru. Búgarður ráðgjafarþjónusta og Teiknistofa arkitekta – Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. teiknuðu upp svæðið.

Engar kvaðir um byggingartíma

Engar kvaðir fylgja lóðunum um hvenær byggt er. „Það má vera í næstu viku eða eftir tíu ár,“ sagði Hjörleifur Árnason, annar eigenda Stalls ehf. í samtali við Akureyri.net. „En frá því byggingaframkvæmdir hefjast verður þeim að ljúka innan þriggja ára.“

Sjö hús eru nú að rísa í Kotru og að auki er búið að taka fimm húsgrunna. Áætluð verklok hjá Stalli ehf. eru þegar búið er að ljúka vegaframkvæmdum á svæðinu. Gengið hefur verið frá samningi við Jóhann Reyni Eysteinsson á Eyrarlandi um snjómokstur.

Hverfisfélagið Kotra

Áður en sala á lóðum hófst var Hverfisfélag Kotru stofnað, sem allir húseigendur þurfa að vera aðilar að. Í umsjá félagsins verður snjómokstur, rotþrær og umsjón opinna svæða. Stallur ehf. tók frá svæði sem hverfisfélaginu verður gefið og er ætlað sem leiksvæði fyrir börn. Fyrir ofan tilvonandi íbúðabyggð er skógrækt þar sem búið er að gróðursetja yfir 20.000 trjáplöntur. Það svæði er einnig ætlað til útivistar fyrir íbúa hverfisins.

Kveikjan að hugmyndinni

Hjörleifur hafði búið í Reykjavík í 20 ár og langaði að flytja aftur norður til Akureyrar, þar sem hann er uppalinn. Hann lét verða af því. Nú bjuggu þeir frændur, Hjörleifur og Pétur báðir á Akureyri og horfðu hýrum augum yfir í heiði, þó án þess að þeir vissu af þessum sameiginlega áhuga. „Ég hitti svo Pétur frænda minn og kom þá í ljós að hann vildi líka byggja í heiðinni.”

Upphófst þá leit að lóðum í heiðinni en þeir fundu ekkert sem hentaði. Hvað skal þá tekið til bragðs? Jú, þeir fundu jörðina Syðri-Varðgjá sem þá var til sölu og festu kaup á hluta hennar. Við tók mikið skipulagsferli þar sem þeir skiptu jörðinni upp í 25 lóðir og skógræktarsvæði. Nú eiga þeir sína lóðina hvor og ætla báðir að byggja sér hús úr frauðkubbum. Hjörleifur hafði fyrir löngu ákveðið að ef hann byggði sér hús þá yrði slíkt byggingarefni notað. Það var því næsta skref að kaupa frauðverksmiðjuna Polynorth, ásamt vini sínum, Hrafni Stefánssyni og hefja framleiðslu á kubbum.

Gott að eiga góða að

Hjörleifur sagði að þeir Pétur hefðu ekki farið út í verkefnið ef þeir hefðu vitað hvað þetta yrði mikið bras! Það hefði tekið langan tíma að fá öll tilskilin leyfi – mun lengri tíma en þeir hefðu búist við í upphafi. En framkvæmdir hafa gengið vel. Þverárfeðgar, þeir Ari og Jón Bergur, hafa verið með frá fyrsta degi „að grafa grunna, gera vegi og leggja niður allar lagnir. Þeir aðstoðuðu einnig við girðingarvinnu og fóru háskaför í miklum bratta á gröfu og jarðýtu,“ segir Hjörleifur.

„Sveinn Egilsson, nágranni okkar í Brekkulæk hefur líka verið mjög hjálplegur og svo verð ég að nefna Lilju Philipusdóttur, landslagsarkitekt hjá Teiknistofa arkitekta – Gylfi Guðjónsson og félagar ehf, sem er algjör snillingur. Okkar bestu þakkir fá svo Bylgja og Hinni á Smáralæk sem hafa reynst okkur gífurlega vel og gerðu okkur kleift að hefja vegaframkvæmdir.”

Þeir frændur, Hjörleifur og Pétur eru því langt komnir að láta drauma sína rætast, að búa í Vaðlaheiðinni og njóta útsýnisins yfir Akureyri og Eyjafjörðinn.

Skólplagnir lagðir í Kotru. Hjörleifur, Pétur, Jón Bergur Arason, Helgi Hjörleifsson og Hinrik Hjörleifsson.

Bergsveinn Þórsson, skógræktarráðgjafi, og Pétur Karlsson.

Hópur sem plantaði á 30 hektara svæði sumarið 2020; Helgi Hjörleifsson, Hinrik Hjörleifsson, Auður Ásgrímsdóttir, Hjördís Óladóttir, Jóhann Valur Björnsson, Bryndís Björg Þórhallsdóttir, Karl Frímannsson, Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir, Bjarni Karlsson og Pétur Karlsson. Hjörleifur og Pétur eru með samning við Skógrækt ríkisins og plönturnar verða líklega alls um 50.000.  

Rotþró fyrir syðra hverfið komið fyrir. Jón Bergur Arason og Pétur Karlsson.

Hjörleifur Árnason í girðingarvinnu; þeir Pétur sjá um að koma upp girðingu á 2,2 km kafla fyrir Skógræktina.

Fyrsta máltíðin á svæðinu. Pétur, Hjörleifur og Nagli.