Skipulagsmál
Af hverju eigum við ekki að rífa gömul hús?
20.03.2024 kl. 06:00
Árni Árnason arkitekt. Myndir með viðtali eru teknar á skrifstofu Árna við Furuvelli. RH
„Það er engin ástæða til þess að rífa niður steypu, til þess að setja nýja steypu í staðinn,“ segir Árni Árnason, arkitekt og hönnuður. „Það er í fyrsta lagi kolefnissporið, sem fylgir því að rífa hús, sem ætti að hugsa um. Svo glötum við náttúrulega öllum menningarverðmætum, þó að við glötum kannski beinum tengslum við húsin í tímans rás, þá höfum við ennþá söguna.“
Árni ætlar að halda fyrirlestur um verndargildi gamalla húsa á opnum fræðslufundi í sal Rauða Krossins á morgun, fimmtudaginn 21. mars. Það er Arfur Akureyrarbæjar sem stendur fyrir fundinum, sem er opinn öllum og hefst kl. 16.30. Í viðburði á Facebook stendur að velt verði upp spurningum um skipulagsmál, menningarverðmæti og endurnýtingu. Blaðamaður Akureyri.net kíkti í kaffi til Árna.
„Ef það þarf eitthvað að breyta og uppfæra gamlar byggingar, þá er einfaldlega hægt að byggja nýtt við gamalt og tengja þetta saman,“ segir Árni. „Sjáðu eins og skálann uppi í Fálkafelli. Þar er kannski nafnið mitt á veggnum síðan ég var tólf ára, innan um allskonar sögu af öðru tagi. Það má kannski leyfa þessu gamla að vera, en bæta þá einverju nýju við.“
Árni bendir á að það skorti oft að fólk skoði heildarmyndina þegar ráðist er í framkvæmdir, eins og uppi í Fálkafelli. „Í framtíðinni mun að öllum líkindum koma vegur upp á Súlumýrar. Þetta er að verða eitt af aðal útivistarsvæðum bæjarins og hægt að framlengja skíðavertíð með því að leggja veg hærra upp. Er þá staðsetning skálans eins og hún er núna, er hún þá góð með tilliti til þess?“
Árni bendir á því að það sé ekki vænlegt til árangurs að skiptast alltaf í tvær fylkingar í skipulagsmálum, með og á móti
Árni bendir á svipað atriði þegar talið berst að miðbæjarskipulaginu og framtíð Akureyrarvallar. „Þegar við tökum alltaf bara eitt frímerki fyrir í einu, þá verður engin heild. Ég myndi vilja byrja á því að taka allt svæðið frá Samkomuhúsinu til Glerártorgs og komast að niðurstöðu um það hvernig svæðið á að vera sem heild.“ Árni bendir á því að það sé ekki vænlegt til árangurs að skiptast alltaf í tvær fylkingar í skipulagsmálum, með og á móti. „Það þarf að eiga í samtali um hvað við viljum, hvað langar okkur að gera og hvernig langar okkur að gera það. Þegar fólk fer í ágreining, þa verður það reitt og missir sjónar á að það ætti að vera saman í liði við að finna bestu lausnina.“
„Spáðu í því, að Menntaskólinn á Akureyri var tæpur,“ segir Árni. „Á sínum tíma stóð til að rífa hann og byggja eitthvað nýstárlegt úr stáli og gleri. Það þarf alltaf að vera á varðbergi og raddir þeirra sem sjá menningarverðmætin í hverju húsi fyrir sig verða að heyrast.“
En fyrir hverja borgar það sig að byggja nýtt? Fyrir verktakann. Ekki fyrir jörðina
Það er einhver óþolinmæði og peningasparnaður sem stjórnar því oft að stungið er upp á því að rífa gamalt og byrja upp á nýtt. „Tökum nú myglu sem dæmi. Það er komin upp algjör hystería í kring um það,“ segir Árni. „Nú er til dæmis til umræðu að rífa gamalt stjórnsýsluhús á Húsavík vegna þess að það fannst mygla í kjallara. Ég hugsa að það sé mygla í öllum niðurgröfnum húsum sem eru ekki drenuð. Það er bara hægt að hreinsa það og drena almennilega.“ Árni segir að fólk segi gjarnan að það borgi sig að byggja nýtt. „En fyrir hverja borgar það sig að byggja nýtt? Fyrir verktakann. Ekki fyrir jörðina.“
Mikið er um lítil líkön og stúdíur á skrifstofu Árna. Lítil, hvít hús sem hægt er að raða saman í hverfi.
En hvað finnst Árna um nýjustu hverfin í bænum? „Þau eru ekki góð. Eiginlega bara mjög vond,“ segir Árni án þess að hika. „Þar er verið að hugsa um verktakana og fasteignasalana fyrst. Ekki fólkið sem á eftir að búa þarna. Hvað vilja íbúarnir og hvaða þarfir hafa þeir?“ Árni segir að gjarnan séu færð rök fyrir því að fólk ráði sjálft hvar það kaupir sér íbúð, en hann bendir á að það sé er ekkert annað í boði. „Ef það er bara til ýsa á Akureyri, þá borðar fólk ýsu. En það er ekki þar með sagt að engan langi í þorsk.“
„Við viljum eitthvað manneskjulegt í hverfin okkar. Eitthvað grænt. Einhvern stað til þess að koma saman,“ segir Árni. „Hverfið er eiginlega eins og íbúð í sjálfu sér. Við hittumst öll í stofunni, en við viljum geta farið inn í herbergin okkar þegar við viljum.“ Árni bendir á að það vanti kjarnann í þessi hverfi. Hann býr sjálfur uppi í Naustahverfi. „Ég fylgist með ungu fólki á rölti með barnavagna, en það gengur bara fram og aftur um göturnar, eini staðurinn til þess að stoppa og setjast niður er leikvöllurinn við skólann.“
Árni bendir á að það þurfi ekkert að skammast í verktökum, heldur séu það skipulagsyfirvöld sem þurfi að taka sig á. „Verktakinn er bara að reyna að reka fyrirtæki og græða eins og allir aðrir. Ef það væri svo að verktaki gæti hringt í skipulagsyfirvöld og fengið einhverju breytt, þá væri eitthvað mikið að.“
Þeir sem vilja ekki hafa botnlangann, vilja bara komast hraðar frá A til B. Við, sem búum í botnlangagötunni erum alsæl!
Á morgun ætlar Árni að tala almennt um skipulag, taka fyrir miðbæjarskipulagið til dæmis. „Ég ætla að tala um gömul hús og hvers vegna við þurfum ekki að rífa þau,“ segir Árni „Ég ætla að taka dæmi frá Danmörku og Færeyjum. Ný hverfi sem rísa þar, þar sem áhersla er lögð á þarfir íbúanna og litlir kjarnar með fjölnota sal og samkomustöðum eru áberandi. Einnig ætla ég að tala um Oddeyrina, iðnaðarhverfið þar, sem hefur verið mikið til umfjöllunar.“ Rauði þráðurinn í sýn Árna á skipulag byggðar er sá að alltaf skal hugsa um notendur fyrst. Það fólk, sem mun lifa og hrærast á svæðinu.
„Stundum er rifist um botnlangagötur,“ segir Árni. „Þeir sem vilja ekki hafa botnlangann, vilja bara komast hraðar frá A til B. Við, sem búum í botnlangagötunni erum alsæl! Það er kyrrð og ró og barnabörnin okkar geta leikið sér örugg úti við.“
Bollinn hans Árna er skipulagsundur í sjálfu sér.