Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Vísbendingar um vannæringu aldraðra

Mynd: Danie Franco - Unsplash.com.

Rannsókn á næringarástandi eldra fólks í sjálfstæðri búsetu sem fékk heimahjúkrun á Akureyri leiddi í ljós að 36% þeirra sem voru hluti af rannsókninni höfðu ákveðnar eða sterkar vísbendingar á vannæringu. Þetta kemur fram í grein sem Sandra Ásgrímsdóttir, Laufey Hrólfsdóttir, Berglind Soffía Blöndal og Árún Kristín Sigurðardóttir hafa birt í Tímariti hjúkrunarfræðinga. Rannsóknin sem greinin byggir á var hluti af meistaraverkefni Söndru í hjúkrunarfræði og var Laufey aðalleiðbeinandi hennar. 

Fjallað er stuttlega um greinina og rannsóknina á vef Sjúkrahússins á Akureyri. Þar kemur meðal annars fram að vannæring hafi áhrif á líkamlega og andlega heilsu, vannærðir einstaklilngar lifi skemur, fái frekar sýkingar og þoli og svari meðferð verr. Sjúkrahúslegur eru lengri og endurinnlagnir mun algengari hjá þessum hópi til samanburðar við vel nærða skjólstæðinga. 

Mæta næringarþörf og minnka þjónustuþörf

Í útdrætti greinarinnar segir meðal annars: „Með fjölgun í hópi eldra fólks má áætla aukið álag á heilbrigðiskerfið. Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu hefur lítið verið rannsakað en ef næringarþörf þessa viðkvæma hóps er mætt má mögulega stuðla að auknum lífsgæðum, minni þjónustuþörf, færri legudögum á sjúkrahúsum og ótímabærum búferlaflutningi á öldrunarheimili. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni sem fá þjónustu frá heimahjúkrun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.“

Heimahjúkrun skimaði skjólstæðinga sína, alls 193 einstaklinega, 65 ára og eldri, sem búa sjálfstætt á Akureyri og nágrenni. Við skimunina var notað matstækið „Mat á áhættu fyrir vannæringu“ sem er til staðar í Sögu sjúkraskrá. Rannsóknin fór fram í mars 2022.

Miðgildi aldurs var 84 ár. Alls reyndust 31,1% þátttakenda vera með ákveðnar líkur á vannæringu og 5,2% með sterkar líkur á vannæringu. „Ósjálfrátt þyngdartap undanfarið, viðvarandi léleg matarlyst eða ógleði og nýleg dvöl á sjúkrastofnun voru veigamestu áhættuþættirnir meðal þátttakenda sem höfðu ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu," segir meðal annars í útdrætti greinarinnar.

Þörf á skimun óháð holdafari

Spurt er hvernig hagnýta megi niðurstöður rannsóknarinnar í hjúkrun eða íslenskri heilbrigðisþjónustu. Svarið er að tryggja þurfi að eldra fólk sé skimað fyrir áhættu á vannæringu í samræmi við klínískar leiðbeiningar ásamt því að efla samvinnu milli sjúkrastofnana og næringarfræðinga með eftirfylgni eftir útskrift. Þá er einnig bent á að fólk með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 glími ekki síður við vannæringu eða sé í áhættu á vannæringu og því mikilvægt að skima alla skjólstæðinga, óháð holdafari. Bent er á að hjúkrunarfræðingar séu í lykilstöðu til að skima eldra fólk fyrir áhættu á vannæringu og vísa áfram í þverfagleg úrræði.


Skjáskot af útdrætti og upphafi greinarinnar, en Tímarit hjúkrunarfræðinga er aðgengilegt til lestrar á vefnum issuu.com. Smellið á myndina til að opna greinina í tímaritinu.