Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Versló: Umferðarklúður í Oddeyrargötunni

Skjástkot úr myndböndum sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson birti á Facebook kl. 17:43 föstudaginn 2. ágúst. Bíll við bíl eftir Oddeyrargötunni. 

Íbúar í Oddeyrargötunni og víðar á neðri Brekkunni eru afar ósáttir við umferðarskipulag og framkvæmd lokana og takmarkana um verslunarmannahelgina þar sem afleiðing lokana hafi verið gríðarlegt álag á þröngar íbúðargötur eins og Oddeyrargötuna, Krabbastíg og Hamarstíg.

Verklagsreglum í tengslum við lokun Gilsins var ekki fylgt, segja íbúar, sem munu ekki samþykkja framvegis að Gilinu verði lokað án áþreifanlegra mótvægisaðgerða. „Við munum krefjast svara, hver beri ábyrgð á þessum vinnubrögðum og hvernig við getum komið í veg fyrir að verklagsreglum sé enn og aftur ekki fylgt og lífi íbúa og gesta stefnt í voða sökum þess. Þetta er grafalvarlegt mál!“ segir Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við Oddeyrargötu og talsmaður íbúanna.

Lokanir vegna Einnar með öllu og Súlna vertical

Akureyri.net sagði fyrir helgina frá lokunum gatna og umferðartakmörkunum um verslunarmannahelgina - sjá hér: Umferðartakmarkanir í bænum um helgina. Þar kemur fram að Kaupvangsstræti yrði lokað frá Skipagötu að Eyrarlandsvegi frá kl. 18 á fimmtudegi til hádegis á mánudegi. Þess sáust strax merki, sérstaklega í síðdegisumferðinni og þegar heimsóknir í Vínbúðina náðu hámarki, að ökumenn notuðu hina þröngu Oddeyrargötu fremur en breiðu safngötuna Þórunnarstræti sem staðgengil fyrir akstur eftir Gilinu.


Nýlega voru gatnamót Oddeyrargötu og Brekkugötu máluð rauð „til marks um að við taki hverfi þar sem vélknúin ökutæki njóta ekki forgangs umfram aðra ferðamáta“ eins og það var orðað í frétt um málið. 

Umferðin var gríðarleg um Oddeyrargötuna á tímabili og beinlínis hættulegt að búa þar, eins og einn íbúinn, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, setti fram í pistli á Facebook. Skjáskot úr myndböndum Þorvaldar Bjarna sýna stöðuna um stundarfjórðungi fyrir kl. 18 á fimmtudeginum. Gríðarleg umferð í Vínbúðina og umferðin upp og niður Oddeyrargötuna eftir því.

Þorvaldur Bjarni bendir á að Oddeyrargatan sé 100% íbúagata þar sem búi fólk með fjölskyldur, börn, gamalmenni, fólk með hreyfihamlanir og gæludýr. Síðan segir hann: „Umferðarþunginn í þessari litlu og þröngu íbúagötu er ólíðandi. Ég er ekki viss um að smá rauður partur neðst í götunni dragi úr hraðakstri ef það er engin önnur veruleg hindrum.“ Hann bendir meðal annars á að Akureyrarbær leyfi til dæmis ekki húseigendum götunnar að reka gistiheimili í götunni þar sem þetta sé íbúðarsvæði. „Nú þarf hljóð og mynd að fara að passa saman hjá bænum.“


Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við Oddeyrargötu, hefur lengi barist fyrir bættu öryggi íbúanna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Íbúðagata stíflaðist af umferð

Íbúasamtök Oddeyrargötu setja sig þó ekki upp á móti lokunum sem slíkum heldur krefjast þess að einnig sé gripið til mótvægisaðgerða til að beina ekki stofnbrautaumferð inn í íbúðahverfin líkt og gerðist um nýliðna verslunarmannahelgi. Íbúarnir fordæma vinnubrögð Akureyrarbæjar við þessar lokanir.

„Hér hreinlega stíflaðist íbúagatan okkar af þungaumferð og jafnvel þrengri götur líkt og Hamarstígur og Krabbastígur og skapaðist gríðarleg hætta af umferðinni svo ekki sé minnst á loft- og hljóðmengun,“ segir Aðalsteinn. Hann segir svona lokanir án mótvægisaðgerða líklega hvergi leyfast nema á Akureyri og til dæmis myndi heyrast eitthvað ef Miklubrautinni í Reykjavík yrði lokað í nokkra daga til að halda hátíð um mestu umferðarhelgi ársins án þess að leiða umferðina áfram um aðrar stofnbrautir.

Verklagsreglur ekki nógu skýrar?

Í verklagsreglunum segir meðal annars að tilkynningar um lokanir og mögulegar hjáleiðir skuli vera á næstu gatnamótum og tengibrautum, þannig staðsett að ökumenn hafi svigrúm til að breyta um akstursleið. Þá skuli eftir fremsta megni ekki vísa ökumönnum á hjáleið sem liggur um íbúðagötur. Aðalsteinn kveðst að auki hafa það munnlega frá þeim sem með þessi mál fara að einnig skuli loka fyrir umferð frá gatnamótum Þórunnarstrætis og Þingvallastrætis, við sundlaugina, þegar lokað er fyrir umferð um Gilið.

„Því miður hefur það gerst trekk í trekk að þeim reglum sé ekki fylgt, með fyrrgreindum afleiðingum, og því finnst okkur nú nóg komið eftir klúður helgarinnar. Við munum krefjast svara, hver beri ábyrgð á þessum vinnubrögðum og hvernig við getum komið í veg fyrir að verklagsreglum sé enn og aftur ekki fylgt og lífi íbúa og gesta stefnt í voða sökum þess. Þetta er grafalvarlegt mál!“ segir Aðalsteinn.

U-beygja, Krabbastígur og Hamarstígur

Umferðin var gríðarleg síðdegis á fimmtudag og föstudag, en svo bættist klúður á laugardeginum þar ofan á. „Til að toppa vitleysuna alla þá var Oddeyraragötunni lokað um skeið neðst, við Brekkugötu, meðan á Súlur vertical hlaupinu stóð og myndaðist því öngþveiti neðst þar sem þungaumferðin þurfti öll að snúa við og keyra upp Oddeyrargötuna aftur eða beygja upp Krabbastíg. Við íbúarnir áttum varla til orð yfir þessi vinnubrögð!“ segir Aðalsteinn.


Skjáskot úr myndbandi Þórunnar Geirsdóttur. Hér er lokunarskiltið komið upp að Krabbastíg. 

Um kl. 13:30 á laugardeginum var lokunarskilti á Oddeyrargötunni, ofan við Brekkugötu, fært ofar, upp að Krabbastíg. Fram að því höfðu ökumenn komið niður Oddeyrargötuna og þurft að taka U-beygju og snúa við til að fara aftur upp Oddeyrargötuna, eða inn í Krabbastíginn. Örlítið skárra þegar umferðin fór beint af Oddeyrargötunni inn í Krabbastíginn. Þórunn Geirsdóttir, íbúi við Oddeyrargötuna, birti myndband af umferðinni skömmu eftir þessa tilfærslu. „Það hefði kannski mátt gerast nokkrum tímum fyrr þó maður gleðjist yfir öllu því litla sem gert er,“ skrifar Þórunn meðal annars með myndbandinu. Þórunn kveðst þó hafa horft á marga ökumenn virða skiltið að vettugi.

Ei veldur sá er varar

Aðalsteinn átti ekkert endilega von á því fyrirfram að lokanir og umferðartakmarkanir um helgina myndu heppnast vel af hálfu bæjarins. Hann sendi því í byrjun liðinnar viku erindi til allra þeirra sem málið varðar innan bæjarkerfisins, bæjarstjóra þar á meðal, þar sem hann fyrir hönd íbúa Oddeyrargötunnar bað alla vinsamlegast um að tryggja lokun Oddeyrargötunnar samhliða lokun Gilsins. „Einnig sendi ég skilaboð í gegnum Facebook-síðu Akureyrarbæjar og fékk þar svar um að viðkomandi myndi koma þessum skilaboðum áleiðis einnig. Samt klúðraðist þetta. Þvílíkt klúður og vanvirðing við okkur íbúana segjum við!“

Ekki samþykkt framvegis án mótvægisaðgerða

„Niðurstaðan eftir klúður helgarinnar er sú að við getum ekki samþykkt það framvegis að gilinu verði lokað án áþreifanlegra mótvægisaðgerða og er ég viss um að allir íbúar neðri brekkunnar séu því sammála. Fögur fyrirheit á blaði án aðgerða gera einfaldlega ekkert fyrir okkur þegar kemur að öryggi okkar og barnanna okkar,“ segir Aðalsteinn Svan Hjelm, talsmaður íbúa við Oddeyrargötuna.


Lokunin við Brekkugötuna vegna hlauparanna í Súlur vertical sem hlupu niður Brekkugötuna á leið í markið í miðbpnum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Aðalsteinn segir að íbúarnir muni á næstu dögum kalla eftir fundi með þeim sem með þessi málefni fara hjá Akureyrarbæ og fá útskýringar á þessu klúðri og um leið hvernig hægt sé að tryggja að farið sé eftir þeim verklagsreglum sem fyrir liggja án þess að íbúarnir þurfi sífellt að vera að minna á þær. Hann hefur nú þegar sent tölvupóst til bæjarins eftir helgina þar sem hann fer yfir málið og kallar eftir aðgerðum.

Lokanir og leiðir í hnotskurn

Myndin hér að neðan sýnir þær leiðir sem rætt er um í fréttinni.

  • Rauð strik - lokanir í Kaupvangsstræti (Gilinu)
  • Appelsínugul strik - tímabundnar lokanir vegna hlaupara í Súlur vertical
  • Rauður kassi - Vínbúðin
  • Fjólublátt strik - umferð sem hefði verið upp Kaupvangsstræti, en fer þess í stað eftir Glerárgötunni, inn í Gránufélagsgötu og upp Oddeyrargötu, í stað þess að aka lengra eftir Glerárgötunni og upp Þórunnarstræti.
  • Svart strik - umferð eftir Þingvallastræti sem hefði að jafnaði og að mestu leyti haldið áfran niður Kaupvangsstræti
  • Blátt strik - umferð niður Eyrarlandsveg sem hefði haldið áfram niður Kaupvangsstræti
  • Gult strik - leið sem margir ökumenn völdu í stað þess að fara niður Þórunnarstrætið. Framhaldið á gula strikinu sýnir vandræðin sem urðu á laugardeginum þegar ökumenn komu niður Oddeyrargötu, að lokun við Brekkugötuna.

Myndin er unnin úr skjáskoti af map.is/akureyri.