SAk fékk fjölþjálfa frá Lionsmönnum

Lionsklúbbur Akureyrar færði Sjúkrahúsinu á Akureyri veglega gjöf, svokallaðan fjölþjálfa, þegar ný aðstaða sjúkra- og iðjuþjálfunar var tekin í notkun á stofnuninni.
„Við erum þess fullviss að þessi veglega gjöf Lionsklúbbsins mun nýtast skjólstæðingum okkar vel og vera þeim góð hvatning. Þá spillir ekki fyrir hversu fallegt útsýni er úr nýju sjúkraþjálfunaraðstöðunni yfir Eyjafjörðinn,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir, yfirsjúkraþjálfari á SAk.
Tækið er einstakt fyrir margra hluta sakir, segir í fréttatilkynningu frá SAk. Það gagnast mörgum sjúklingahópum, þá sérstaklega þeim sem ekki geta nýtt hefðbundin þolþjálfunartæki eins og göngubretti eða þrekhjól. Tækið getur gagnast fólki með verulega takmarkaða hreyfigetu og jafnvægisvandamál, auk þess sem að það er gott aðgengi að því fyrir þau sem þurfa að notast við hjólastóla. Tækið nýtist fyrst og fremst sem þolþjálfunartæki en einnig til að byggja upp styrk og liðleika.
Sambærilegt tæki hefur verið nýtt á endurhæfingardeildinni á Kristnesi undanfarin fimm ár og er alltaf jafn vinsælt og oft biðröð í að komst í tækið.
Fjölþjálfinn prófaður við opnun nýrrar aðstöðu sjúkra- og iðjuþjálfunar SAk. Mynd: SAk