Quality Console – nýtt, notendavænt gæðakerfi

Forsaga verkefnisins er sú að Samherji fiskeldi og Háskólinn á Akureyri hófu samstarfsverkefni með styrk frá Vinnumálastofnun vegna Covid faraldursins. Starfsfólk Samherja fiskeldis í Sandgerði skráði á þeim tíma upplýsingar á þar til gerð eyðublöð en markmiðið með verkefninu var að koma upplýsingunum á stafrænt form. Það tókst að því marki að byrjað var að nota frumútgáfu kerfisins á spjaldtölvum í vinnslu Samherja í byrjun árs 2021.
- Quality Console er eitt sex nýsköpunarverkefna sem DriftEA valdi í svokallaðan Hlunn og fá þau verkefni heildstæða aðstoð og ráðgjöf næstu 12 mánuði
- Akureyri.net kynnir umrædd verkefni um þessar mundir, eitt í viku hverri. Komplíment var til umfjöllunar í síðustu viku en áður hafði verið fjallað um Grænafl og ÍBA 55+
- DriftEA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar sem tók starfa á Akureyri í vetur
- Alls fengu 14 verkefni inngöngu fyrr í vetur í nýsköpunarhraðal sem nefnist Slipptaka. Næsta skrefið að Slipptöku lokinni er Hlunnurinn sem er að sænskri fyrirmynd en DriftEA er í samstarfi við sænska frumkvöðlasetrið Sting
Starfsmaður fiskvinnslu Gjögurs á Grenivík notar Quality Console.
Quality Console er heildstætt kerfi sem heldur utan um gæðamál fyrirtækja, hvort sem notendur vilja nýta gögnin betur og koma fyrr auga á vankanta, eða spara sér vinnu í utanumhaldi, að sögn þeirra félaga.
Kerfið samanstendur af smáforriti (appi) í spjaldtölvu eða síma ásamt vefsíðu sem gerir reglulegar skráningar í gæðaeftirliti aðgengilegar og einfaldar. Quality Console gefur notendum betri yfirsýn yfir það hvort skráningum sé sinnt, hvort lykilgildi séu innan marka og sparar öllum þeim sem að gæðakerfinu koma mikinn tíma, að sögn þeirra félaga. „Það þarf ekki að fletta í möppum þegar úttektaraðili mætir eða færa tölur handvirkt af blöðum inn í Excel til greiningar. Þannig sparast dýrmætur tími sem hægt er að nota í annað,“ segir Fjölnir við Akureyri.net.
Mjög notendavænt
Skráningarblöð birtast í appi fyrir spjaldtölvu eða síma sem er notað við matvælavinnsluna. Starfsmenn gæðaeftirlitsins nota appið til skráningar og skila inn skráningarblöðum í gegnum netið. „Þessa stundina er mikil vinna í gangi við það að gefa út skráningarhluta kerfisins fyrir hvern þann sem þarf sambærilegt kerfi til þess að geta skráð fyrirtæki í viðskipti, sama hversu stórt eða smátt fyrirtækið er, án sérstakrar aðkomu okkar.“
Eyjabiti - harðfiskvinnsla á Grenivík. Frá vinstri: Heimir Ásgeirsson, Þorsteinn Kristjánsson, Fjölnir Unnarsson og Hjörtur Geir Heimisson.
Í sérstöku viðmóti á vefsíðu kerfisins eru skráningarblöð gæðakerfis skilgreind. „Hægt er að skilgreina viðmiðunarmörk fyrir þær spurningar sem mæla mikilvægustu þættina. Einnig er hægt að setja viðmið um hversu oft skuli skrá á hvert skráningarblað og fá tilkynningu ef eitthvað gleymist,“ segir Þorsteinn. „Einnig geta notendur haft gæðahandbækur sínar á sérstöku viðmóti í kerfinu. Þess vegna er auðvelt að breyta og vinna í gæðahandbókinni án þess að þurfa að hugsa um sögu breytinga og útgáfustjórnun, því kerfið sér um það. Þar verður auðvelt að sýna úttektaraðilum gæðahandbókina í heild á mun aðgengilegra og notendavænna formi heldur en það sem flestir búa við í dag.“
Þorsteinn í sölumálin
Það voru Fjölnir og Benedikt Rúnar Valtýsson, samnemandi hans í tölvunarfræðinni, sem sinntu verkefninu á vegum Samherja og háskólans á sínum tíma. Eftir að notkun frumútgáfu kerfisins hófst í vinnslu Samherja í Sandgerði snemma árs 2021 sneru þeir sér öðrum störfum en fljótlega varð ljóst að verkefninu þyrfti að sinna af fullum krafti og Fjölnir vatt sér í að búa til vefsíðu þar sem stjórnin er færð meira í hendur þeirra sem nota kerfið. „Þarna var þá komið kerfi sem gat átt við fleiri en þessa einu vinnslu,“ segir Fjölnir.
„Næsta skref var að kanna hvort fleiri hefðu áhuga og tvö fyrstu fyrirtækin sem ég ræddi við slógu til, annað þeirra hætti reyndar við tveimur dögum seinna en hitt er fiskvinnsla Gjögurs á Grenivík sem hefur verið áhrifamikill kúnni síðan.“
Þrátt fyrir góðar viðtökur mokaðist kerfið ekki út, eins og Fjölnir orðar það, og því kom Þorsteinn að verkefninu á ný í því skyni að koma sölumálum á skrið.
Fjölnir og Þorsteinn á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Barcelona á Spáni á síðasta ári. Þeir munu kynna Quality Console þar aftur í byrjun næsta mánaðar.
Fjölnir Unnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Quality Console, er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur reynslu af forritun vefsíðna, vefþjónustu og smáforrita. Fjölnir hefur unnið sem forritari hjá færsluhirðingarfyrirtækinu Teya og hjá Samskipum.
Fyrir háskólanám starfaði Fjölnir í frystihúsi Útgerðarfélags Akureyringa í fjögur sumur, þar af eitt sumar við gæðaeftirlit. Þá er hann með bakgrunn úr upplýsingatæknigeiranum og reynslu úr gæðaeftirliti í matvælaframleiðslu, sem hvort tveggja eru mikilvægir þættir í umræddu vekefni.
Þorsteinn Kristjánsson er sölu- og markaðsstjóri félagsins. Hann er menntaður stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu. Þorsteinn sér um sölu og kynningu á kerfinu og samskipti við viðskiptavini.
ÚA – MA – Toyota
Leiðir Fjölnis og Þorsteins lágu fyrst saman í sumarvinnu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, síðar lentu þeir saman í bekk í Menntaskólanum á Akureyri, voru saman í stjórn skólafélagsins Hugins störfuðu auk þess saman í söludeild Toyota á Akureyri nokkur sumur. Þaðan hafa þeir reynslu af sölumennsku.
Fimm fyrirtæki nota nú þegar gæðakerfi Quality Console, allt eru það fiskvinnslur en kerfið hentar mun fleirum og nú er unnið að því að fjölga viðskiptavinum; til stendur að bjóða upp á áskriftarleiðir fyrir bæði fyrirtæki í veitingageiranum og þrifafyrirtækjum. „Við erum einmitt komnir í samstarf við aðila í veitingageiranum til þess að laga lausnina að þeim kúnnahópi. Núverandi viðskiptavinir hafa lýst yfir ánægju með kerfið og það reynst þeim vel. Í raun er kerfið þróað í samráði við viðskiptavini, enda var það upphaflega svar við þörf fiskeldis Samherja eftir slíku kerfi.“