Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Nýja tækið virkar vel og karlarnir líka!

Kristinn Hreinsson því sem næst lofttæmdur eftir síðasta blásturinn! Ekki fer á milli mála að viðstaddir höfðu gaman af tilþrifunum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Tæki gefið hingað  í dag og annað þangað á morgun; þetta er reglulega í fréttum þegar sjúkrahús eru annars vegar og jafnvel fleiri stofnanir. En hvað svo? Það ratar sjaldnast í fréttir ef tækið virkar sem skyldi, enda ekki fréttnæmt í sjálfu sér. Væri samt ekki gaman að gá?

Fyrirtækið Rafeyri á Akureyri gaf í vetur endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) forláta lungnamæli; glænýjan í stað þess gamla sem hætt var að nota þar sem ekki fengust lengur í hann varahlutir. Þegar fulltrúum Rafeyrar var boðið í heimsókn á Kristnes í þakklætisskyni og til þess að prófa mælinn fékk Akureyri.net að slást með í för.

Það voru Davíð Hafsteinsson, formaður stjórnar Rafeyrar, og Kristinn Hreinsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem skutust fram í Kristnes. Í ljós kom að mælirinn sá arna virkaði ljómandi vel og stemningin var eins og á góðu uppistandi!
_ _ _ _

Davíðs þáttur Hafsteinssonar

Það er Ragnheiður Harpa Arnardóttir sjúkraþjálfari og sérfræðingur í lungnasjúkraþjálfun á endurhæfingardeild SAk, sem festir klemmuna á nef Davíðs og hvetur hann til dáða. Fyrir aftan standa Kristín Margrét Gylfadóttir, þjónustustjóri endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustunnar, til vinstri, og Sólveig Pétursdóttir, yfirlæknir endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu SAk.

_ _ _ _

Klemmu er smellt á nef og plasthylki stungið í munn, þér er sagt að draga andann eins djúpt og nokkur kostur er og blása síðan af jafn miklum krafti og eins lengi og þér er lífsins mögulegt. Og mikilvægt sé fara eftir þessum leiðbeiningum. Þetta gerðu Davíð og Kristinn í þrígang og niðurstaðan var ljómandi góð að sögn Ragnheiðar Hörpu Arnardóttur, sjúkraþjálfara og sérfræðings í lungnasjúkraþjálfun á endurhæfingardeild SAk.

„Lungnamæling er nauðsynleg við sjúkdómsgreiningu, til dæmis ef grunur er um astma eða langvinna lungnateppu. Lungnasjúkdómar eru oftast langvinnir og ágerast með tímanum, svo reglubundin eftirfylgd er mikilvæg,“ sagði Ragnheiður Harpa um leið og hún þakkaði þeim Rafeyrarmönnum fyrir höfðinglega gjöf.
 
Ragnheiður Harpa segir miklu máli skipta að til sé tæki á Kristnesi eins og það sem hér um ræðir. „Stundum hefur fólk með þekktan lungnasjúkdóm ekki fengið lungnamælingu í langan tíma og þá er gott að geta tekið stöðuna þegar það kemur til okkar.“
_ _ _ _

Kristinn blés ekki úr nös...
 

Kristinn Hreinsson blés af miklum krafti eins og honum var uppálagt og var útskrifaður með láði, ef svo má segja, eins og Davíð. Framkvæmdastjórinn blés ekki úr nös, enda átti hann ekki að gera það að þessu sinni, eins og sjá má á textanum að ofan ...

_ _ _ _

Sá gamli „sagði upp störfum“

„Það er sem sagt oft ástæða til að gera lungnamælingu hjá skjólstæðingum Kristnesspítala. Gamli lungnamælirinn okkar sagði upp störfum fyrir rúmu ári, eftir um 18 ára dygga þjónustu og það var slæmt að geta ekki gert mælingar hér fremra eftir þörfum. Þessi höfðinglega gjöf frá öðlingunum á Rafeyri er því afar kærkomin og mun nýtast skjólstæðingum okkar vel í mörg ár,“ sagði Ragnheiður Harpa.
 
Til að athuga áhrif berkjuvíkkandi innöndunarlyfja þurfi að gera lungnamælingu fyrir og eftir lyfjagjöf, segir hún. „Þá getur t.d. komið í ljós að ástæða sé til að breyta lyfjagjöf, eða að leita þurfi annarra ástæðna fyrir auknum andþyngslum. Fólk fær líka aukna hvatningu til að taka lyfin daglega þegar það sér mælanleg áhrif.“
 
Þeir skjólstæðingar sem reykja fá oft góða hvatningu til að hætta reykingum, segir Ragnheiður Harpa, „þegar mælingin sýnir reykingatengdar lungnaskemmdir. Skjólstæðingar koma á Kristnes með margvíslega sjúkdómsbyrði, sumir með langa reykingasögu að baki, mikla ofþyngd eða önnur vandamál sem geta aukið mæði. Þá er gott að geta strax staðfest eða útilokað að lungnasjúkdómur sé hluti af vandanum, til að tryggja sem allra bestu meðferð og aukin lífsgæði.“