Mikil tímamót fyrir SAk og samfélagið allt
Samningur um hönnun nýrrar legudeildarbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) var undirritaður í dag. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu tekur næstu níu mánuði, gert er ráð fyrir að jarðvegsvinna hefjist á næsta ári og skv. áætlun er gert ráð fyrir því að húsnæðið verði tekið í notkun í árslok 2028.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Hildigunnar Svavarsdóttir, forstjóri SAk, voru einróma um mikilvægi þessa gjörnings – og tónninn var raunar sá sami í öðrum: Mikil tímamót fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri og samfélagið allt!
Samningurinn er á milli Nýs Landspítala (NLSH ohf) og hönnunarhóps sem samanstendur af Verkís hf, TBL arkitektum, JCA Ltd. og Brekke & Strand, en heilbrigðisráðherra staðfesti undirritun samningsins.
Nýbyggingin verður alls um 10.000 fermetrar að stærð, sunnan við núverandi byggingar og tengd eldra húsnæðinu, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá.
Frétt um niðurstöðu hönnunarútboðsins
Nýtt húsnæði fyrir legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) munu líta svona út eða því sem næst. Mynd frá hönnunarteymi Verkís, TBL og JCA.
Á SAk í dag: Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, til vinstri, og Willum Þór Þórsson, sem nú gegnir embættinu. Kristján Þór var formaður matsnefndar sem fór yfir gæðahluta tillagna í hönnunarútboði vegna framkvæmdarinnar..