Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Mikilvægt að þyrla geti lent við sjúkrahús

Þyrla Landhelgisgæslunnar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Þyrlupallur verður ekki við sjúkrahúsið Ljósmynd: Landhelgisgæslan

Stjórn Félags sjúkrahúslækna sendi í dag frá eftirfarandi ályktun, um þyrluaðgengi við heilbrigðisstofnanir á Íslandi:

Stjórn Félags sjúkrahúslækna ítrekar mikilvægi þyrluaðgengis við helstu heilbrigðisstofnanir á Íslandi til að flýta fyrir og tryggja aðgengi bráðveikra og slasaðra að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Í greinargerð með ályktuninni segir:

Í umræðum síðustu misseri, hefur komið í ljós að í nýjum áformum um uppbyggingu stærstu sjúkrahúsa á Íslandi, nýjum Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri, verði aðgengi þyrlu að sjúkrahúsunum mögulega skert. Stjórn Félags sjúkrahúslækna, óskar eftir að þau áform verði endurskoðuð, svo tryggt sé að bráðveikir og slasaðir njóti áfram sömu þjónustu og verið hefur síðustu áratugi. Heilbrigðisþjónusta er síbreytileg, gera þarf ráð fyrir þyrluaðgengi við heilbrigðisstofnanir landsins í framtíðinni.

Nýtt húsnæði fyrir legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) verður byggt sunnan við núverandi hús stofnunarinnar. Þyrlupallurinn er nú á því svæði. Mynd frá hönnunarteymi Verkís, TBL og JCA.