Mikill gleðidagur á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Mikil gleði ríkti á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í morgun þegar fyrstu starfsmennirnir voru sprautaðir með bóluefni gegn Covid-19.
„Þetta er virkilega langþráður dagur. Þótt bólusetningin breyti raunverulega ekki miklu strax, og engu í sambandi við sóttvarnir, er ferlið þó byrjað,“ sagði Anna Rósa Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur, við Akureyri.net. Hún sprautaði fyrsta starfsmann SAk í morgun, Pálma Óskarsson, forstöðulækni.
„Fólk verður sprautað aftur eftir þrjár vikur og svo er talað um að sjö dögum eftir það geti það verið búið að mynda mótefni. En þetta skref sem stigið er í dag er engu að síður mikilvægt; gerir það að verkum að við upplifum okkur öruggari í starfi en breytir þó aðallega því að við höfum ekki áhyggjur af því að smita skjólstæðinga okkar,“ sagði Anna Rósa.
Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, var hæstánægður eins og aðrir. „Þetta er stór dagur og vonandi upphafið að endalokunum í baráttunni við veiruna,“ sagði hann við Akureyri.net. „Heilt yfir hefur okkur gengið vel og það viðbragð sem við komum upp er nú til reiðu ef á þarf að halda – sem vonandi verður ekki.“
Að sögn Bjarna hafa alls 73 legið á SAk í sóttkví og 52 hafa verið á Covid-göngudeildinni. Covid smitaðir sjúklingar á SAk hafa verið 16 – níu í fyrstu bylgju, enginn í bylgju tvö en sjö í þeirri þriðju. Þrír þurftu að liggja á gjörsæslu í fyrstu bylgju faraldursins og einn í þeirri þriðju, þar af lentu tveir í öndunarvél, báðir í fyrstu bylgju.
Þórdís Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, sprautar Zoe Rochford, lækni á bráðamóttöku sem fær svo súkkulaðimola „í verðlaun“ hjá Ingu Margréti Skúladóttur.
Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, ásamt hjúkrunarfræðingunum Emilíu Báru Jónsdóttur, til vinstri, og Ingu Margréti Skúladóttur.
Anna Rósa Magnúsdóttir sprautar Pálma Óskarsson, fyrstan starfsmanna SAk, og viðstaddir klöppuðu eftir þá sögulegu stund.