Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

MA vann Söngkeppni framhaldsskólanna

Hljómsveitin Skandall. Mynd af vef MA.

Hljómsveitin Skandall, sem keppti fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri, sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fór í Háskólabíói í kvöld í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins.

Skandall flutti lagið Plug In Baby með bresku hljómsveitinni Muse en nú með íslenskum texta, enda er það regla að öll lög skuli flutt á íslensku í lokakeppninni, að því er segir á vef MA í kvöld. „Flutningur stúlknanna skar sig úr þar sem um var að ræða eina atriðið þar sem var heil hljómsveit keppenda á sviðinu,“ segir þar, svo og að flutningurinn hafi verið einstaklega litríkur og líflegur.

Á vef MA segir ennfremur:

„Hljómsveitin Skandall var stofnuð í MA í október 2022 fyrir hljómsveitarkeppnina Viðarstauk og hefur sveitin spilað á ýmsum viðburðum síðan.  Hljómsveitina skipa þær Helga Björg Kjartansdóttir, bassi, Inga Rós Suska Hauksdóttir, söngur, Kolfinna Ósk Andradóttir, hljómborð og fiðla, Margrét Sigurðardóttir, gítar, Sóley Sif Jónsdóttir, trommari, hljómborðsleikari og söngkona, og Sólveig Erla Baldvinsdóttir, flautuleikari.

Gaman er að segja frá því að allar koma þær frá mismunandi stöðum en Helga er frá Akureyri, Inga er frá Blönduósi, Kolfinna frá Ólafsfirði, Margrét frá Siglufirði, Sóley frá Skagaströnd og Sólveig frá Tjörn á Skaga. Það má því segja að Menntaskólinn sé það heimili sem sameini hljómsveitina.“

MA sigraði síðast í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2018 þegar Birkir Blær Óðinsson kom sá og sigraði með lagi Screamin' Jay Hawkins, I put a spell on you.

Tækniskólinn varð í öðru sæti keppninnar í kvöld og Menntaskólinn í tónlist í þriðja sæti.

Dómnefndina skipuðu þau Diljá Pétursdóttir, tónlistarkona, Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður, og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leikkona og tónlistarkona.

  • Smellið á myndina til að horfa á keppnina. Úrslitin eru tilkynnt þegar 2 klukkustundir og 19 mínútur eru liðnar af útsendingunni - klukkan neðst til vinstri sýnir 2:19:00 – og í kjölfarið flytur Skandall sigurlagið.