Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Legurýmum geðdeildar fækkar vegna endurbóta

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur tilkynnt um breytingar sem verða á þjónustu geðdeildar samfara endurbótum á legudeild geðdeildar sem hefjast á næstu dögum og standa yfir í sex til átta vikur. Legurýmum geðdeildar fækkar um helming á meðan á framkvæmdum stendur. Á deildinni eru tíu bráðalegurými, auk dag- og göngudeildar.

Vinna við endurbætur á legudeildinni hefst þriðjudaginn 6. ágúst og verður að fækka legurýmum um helming á meðan framkvæmdirnar standa yfir, auk þess sem ekki verður möguleiki á öryggisvistun. Fram kemur í tilkynningu SAk að samhliða fækkun legurýma verði aukin eftirfylgd í dagþjónustu. Þá hefur einnig verið samráð við Landspítalann vegna þessarar stöðu og mögulega þurfa fleiri skjólstæðingar að leggjast inn þar á meðan á þessum framkvæmdum stendur. 

„Það er von okkar að endurbæturnar gangi vel og eru þær liður í að bæta aðbúnað fyrir skjólstæðinga og starfsfólk legudeildar geðdeildar SAk,“ segir einnig í tilkynningu SAk.

Samkvæmt upplýsingum á vef sjúkrahússins eru flestar innlagnir á legudeild bráðainnlagnir sem koma í gegnum bráðamóttöku sjúkrahússins, en aðrar eru af biðlista samkvæmt tilvísunum sem berast frá heilbrigðisstarfsfólki. Ákveðnum sjúklingum er boðin dagvist eftir innlögn í sólarhringsvist, sé þörf á eftirfylgd þar til viðeigandi úrræði tekur við.